Mánuður: maí 2018

Golfnámskeið hjá Sigurpáli Sveinssyni

2 skipta golfnámskeið
Nú er sumarið að detta inn og rétti tíminn til að fínpússa
leikinn hjá sér. Sigurpáll og Andrea Ásgríms PGA
kennarar ætlar að bjóða uppá 2 skipta námskeið þar sem
ýmist farið yfir stuttaspilið, langaspilið eða bæði.
Námskeið nr. 1. Járnahöggin tekin fyrir í fyrri tímanum og
dræver og brautartré í seinni tímanum.
Dags. 5. Og 12. júní kl. 19-20.
Námskeið nr. 2. Stuttaspilið tekið fyrir í fyrri tímanum og
járn og dræver tekið fyrir í seinni tímanum.
Dags. 5. Og 12. júní kl. 20-21.
Mæting við golfkálann í Leirunni.
Skráning hjá sp@gs.is
Verð: 5.000 kr.

Öldungamótaröðin (1) Heimferðamótið FRESTAÐ

Ágætu þátttakendur í fyrsta móti á Öldungamótaröðinni. Mótastjórn og vallarnefnd hefur ákveðið að fresta Öldungamótinu sem á að fara fram á morgun 27.maí. Ástæða fyrir frestuninni er sú að völlurinn er mjög blautur eftir rigningar í nótt og mun ekki þorna fyrir morgundaginn og er það mat okkar að völlurinn verði óleikhæfur á morgun.

Fyrirhugað er halda þetta mót 9.júní nk,

Þeir kylfingar sem höfðu skráð sig og greitt mótsgjald munu fá bakfærslu næstkomandi mánudag, eins mun ný dagsetning um mótið vera tilkynnt á mánudag.

kv
Móta og vallarnefnd GS.

gs@gs.is
www.gs.is

 

Kvennamót BIO EFFECT

Sunnudaginn 3. júní n.k. fer fram Opna BIOEFFECT kvennamótið á Hólmsvelli í Leiru. Veitt verða verðlaun fyrir sex efstu sætin í punktakeppni og efsta sætið í höggleik án forgjafar. Einnig verða veitt nándarverðlaun á tveimur par-3 brautum og lengsta drive. Dregið verður úr skorkortum í mótslok.

Allir þátttakendur í mótinu fá teiggjöf frá BIOEFFECT.
Ræst verður út af öllum teigum kl. 11:00 og er mæting eigi síðar en kl: 10:30. Veitingar verða í boði fyrir og eftir mót.
Skráning í mótið fer fram á golf.is og verð í mótið er kr: 5.500.-
Vinningarnir eru glæsilegir í boði BIOEFFECT.
1.sæti án forgjafar: BIOEFFECT Lúxus gjafasett
1.sæti með forgjöf: BIOEFFECT Lúxus gjafasett
2.-6. sæti með forgjöf: BIOEFFECT gjafasett
Nándarverðlaunin eru á tveimur par 3 brautum vallarins.

8. hola BIOEFFECT húðvara

16. hola BIOEFFECT húðvara

Lengsta teighögg: BIOEFFECT húðvara
Dregið verður úr skorkortum í lok mótsins. 

Hámarksþátttaka er 92 konur.

www.bioeffect.com
www.facebook.com/BIOEFFECT

Breytt fyrirkomulag í innanfélagsmótum GS

Stjórn Golfklúbbs Suðurnesja hefur ákveðið að reyna nýtt fyrirkomulag í Þ-mótaröðinni 2018. Í öllum Þ-mótunum verður notast við „Ready Golf“, þ.e. sá kylfingur sem er tilbúinn slær án tillits til hver sé lengst frá holu eðahver „eigi teiginn“. Það er von okkar að með þessu fyrirkomulagi megi flýta leik talsvert. Þá eru allir kylfingar hvattir til að leika „Ready Golf“ þegar Leiran er spiluð í sumar.

Með golfkveðju,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja

Aðstöðumál íþróttafélaga Reykjanesbæjar

Opið bréf til oddvita stjórnmálaflokkanna í Reykjanesbæ sem undirritaður birti á vf.is

– Hver er framtíðarsýn framboðanna í bænum?

Nú styttist allverulega í sveitarstjórnarkosningar, rétt um þrjár vikur til stefnu, og lítið er farið að bera á kosningabaráttu framboðanna í Reykjanesbæ.

Á síðasta ári voru íþróttafélögin í bænum beðin um að leggja í stefnumótunarvinnu, vinnu sem ætti að draga upp skýra mynd af forgangsröðun þeirra í sambandi við uppbyggingu og þörf á endurbótum á aðstöðu félaganna í nánustu framtíð. Nú er staðan sú að einhver mannvirki sem hýsa íþróttaaðstöðu félaganna eru í söluferli, liður í samningum Reykjanesbæjar við kröfuhafa. Hvað ef þessar eignir seljast? Er búið að gera einhverjar ráðstafanir til að mæta þeirri þörf sem skapast ef það gerist? Nú hef ég lítillega kíkt á Facebook-síður og heimasíður framboðanna en finn litlar eða engar upplýsingar um stefnu þeirra. Því spyr ég forsvarsmenn framboðanna hér í bæ, beint út: „Hvað er á stefnuskrá þíns framboðs varðandi aðstöðu íþróttafélaganna í bænum?“

Ég óska eftir svörum í tölvupósti á johann[at]gs.is og mun birta þau á heimasíðu Golfklúbbsins, gs.is

Með kærri íþróttakveðju,

Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs Suðurnesja


Hér fyrir neðan mun ég jafnóðum birta þau svör sem berast:


Jóhann Friðrik Friðriksson
oddviti B-listans

Sæll og blessaður. B-listinn er á móti því að selja eignir sem nýttar eru undir íþrótta-og tómstundastarf. Ljóst er að þeir samningar sem núverandi meirihluti hefur gert gera ráð fyrir því að ákveðnar eignir, Stapi, 88 hús, golfskáli og fl. gætu lent í söluferli ef ekki næst að greiða úr skuldamálum. Persónulega finnst mér þeir samningar afleitir og vert að ný bæjarstjórn geri tilraun til þess að endursemja, sé þess kostur. Við höfum haft áhyggjur af aðstöðuleysi m.a. þeirra greina sem eru á hrakhólum og ekki í varanlegu húsnæði. Við viljum skoða kosti sem geta gert samnýtingu starfsfólks mögulega. Nýta ber eignir sem enn eru í eigu bæjarfélagsins eða fasteignafélaga á vegum þess. Hér er linkur á okkar framtíðarsýn…

https://www.vidgetum.is/ithrottir-aeskulydur-forvarnir/


Friðjón Einarsson
oddviti S-lista

Sæll Jóhann. Bæjarstjórn gerði samkomulag við kröfuhafa Reykjanesbæjar sem tók gildi um síðustu áramót. En þar er gert ráð fyrir sölu á nokkrum eignum Eignarhaldsfélagsins Fasteign. þar á meðal eru t.d. fasteignir á svæði GS, íþróttaakademían, hljómahöll ofl. Samkomulagið við kröfuhafa félst í því að ná niður skuldahlutfalli bæjarins, þ.e. niður undir 150% fyrir árslok 2022. Ef það tekst þá þarf ekki að selja neinar eignir. Núverandi bæjarstjórn hefur hinsvegar hug á því að koma eignum á svæði GS í hendur GS. Það hefur þegar verið kynnt á aðalfundi GS og einnig formanni GS sérstaklega. Vonandi kemur ekki til þess að eignir verði seldar en til þess að svo verði þarf að halda vel á spilunum. Þess vegna þurfa menn og konur að kjósa rétt.

Guðbrandur Einarsson
oddviti Y-listans

Sæll Jóhann
Eins og allir vita þá starfar Reykjanesbær eftir svokallaðri aðlögunaráætlun en það er samkomulag sem gert var við innanríkisráðherra á sínum tíma. Þetta samkomulag skuldbindur sveitarfélagið til þess að ná lögbundnu skuldaviðmiði (150%) fyrir árið 2022. Við það verður að standa.
Að því hefur verið unnið allt þetta kjörtímabil og við erum komin meira en hálfa leið. Árið 2013 var skuldaviðmiðið 238% en er nú rúmlega 180%. Ein af þeim aðgerðum sem þurfti að fara í var að færa út fyrir sviga þær fasteignir sem ekki þjónuðu lögbundnu hlutverki sveitarfélagsins og veita sveitarfélaginu heimild til þess að afhenda þær kröfuhöfum ef ekki næðist viðunandi árangur. Við skulum vona að til þess þurfi ekki að koma að kröfuhöfum verði afhentar þessar fasteignir en færi svo, þá tel ég eðlilegt að félagi eins og Golfklúbbi Suðurnesja, yrði veittur rekstarstyrkur sem kæmi þá á móti húsaleigu.
En eigum við ekki að sameinast um að láta þetta ganga upp? Við munum öll hagnast á því þegar til lengri tíma er litið.

Bestu kveðjur
Guðbrandur Einarsson
oddviti Beinnar leiðar XY


Margrét Sanders
oddviti D-listans

Sæll Jóhann
Bestu þakkir fyrir að vekja athygli á þessu.
Það kemur ekki til greina að selja eignirnar sem þú nefnir og þurfum við öll í Reykjanesbæ þvert á flokka að vinna að því að svo verði ekki. Mjög mikilvægt er að vinna með GS að útfærslu sem snýr að þeirra félagsheimili, og sama þarf að gera með íþróttafélögunum í bænum. Við þurfum að vinna saman að því að bæta aðstöðu íþróttahreyfingarinnar.
Flutningur Íþróttaakademíunnar, Hljómahallar, 88 hússins, Golfskálans og nokkurra annarra eigna yfir í sérfélag var tímabundin ráðstöfun til að sýna fram á að ef hefðbundinn rekstur myndi ekki skila okkur niður fyrir 150% skuldaviðmið fyrir árslok 2022 þá gætum við fært þessar eignir út úr efnahagsreikningi og þannig náð niður fyrir viðmiðið. Þetta 150% skuldaviðmið var sett í lög 2011 og tók gildi 1. janúar 2012.
Eftir að hafa farið yfir samninga við kröfuhafa sem eru allir að mestum hluta ríkið (Íslandsbanki, Landsbanki og Ríkissjóður) þá sést vel að aðal atriðið er að við náum að standa við okkar skuldbindingar. Aðlögunaráætlunin gerði ráð fyrir miklu lægri tekjum sveitarfélagsins en raun ber vitni og ber að fagna því að fyrri fjárfestingar skili svona mikilli tekjuaukningu. Það verður þó mikil áskorun í svona mikilli uppbyggingu sveitarfélagsins sem þarf að byggja tvo grunn- og leikskóla á næstu árum, Stapaskóla og skóla í Hlíðarhverfi, að halda skuldaviðmiðinu niðri. Eins eru innviðirnir sprungnir eins og íþróttafélögin hafa bent á. Það er ekki nægjanlegt að byggja bara skóla og láta alla aðra innviðauppbyggingu sitja á hakanum. Við erum þá að bjóða hættunni heim varðandi það mikla forvarnarstarf sem íþrótta- og tómstundastarf skilar.
Í Noregi hefur ríkið komið með aðstoð til sveitarfélaga sem vaxa óeðlilega hratt vegna landflutninga fólks og væri undarlegt ef íslenska Ríkið myndi ganga hart fram á móti sveitarfélögum hér sem eru í sömu stöðu. Við teljum að þegar kröfuhafar eru að mestu Ríkið þá ættum við auðveldlega að geta samið við þá, en þá þurfum við öll að standa saman og standa í lappirnar. Ef 150% viðmiðið næst ekki, þá endursemjum við en öguð stjórnun á fjármálum og rekstri verður alltaf í forgrunni.

Margrét Sanders
Oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Gleðilegt sumar og velkomin í Leiruna

Kæru kylfingar,

Ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs sumars og vona það svo innilega að það eigi eftir að vera veðursælt fyrir okkur kylfingana svo við getum notið Hólmsvallar í sumar.

Hólmsvöllur í Leiru kom ágætlega undan vetri en teigar, brautir og flatir komu vel út að undanskildu þriðju flöt. Þriðja flötin fór illa úr ágangi sjávar veturinn 2016—2017 og var mikil vinna lögð í flötina síðasta sumar. Sú vinna fólst í því að yfirsá miklu magni af fræjum í flötina og virðist svo að um 10% flatarinnar hafi fengið sýkingu s.l. haust og sýkinging hafi drepið grasið. Vallarstarfsmenn eru nú þegar byrjaðir að viðhalda þessu og vonum að flötin verði orðin góð um miðjan maí.

Hólmsvöllur í Leiru var opnaður formlega 14. apríl s.l. en fyrsta mótið var haldið 29. mars og alls voru haldin fimm opin mót í mars- og aprílmánuði.  Þátttaka í þessum mótum var með prýði og skipta þessi opnu mót á vorin klúbbinn fjárhagslega miklu máli.

Þriðjudaginn 8. maí verður fyrsta Þ-mótið haldið og stefnt er að því að halda Þ-mót á öllum þriðjudögum í sumar. Verð í Þ-mótin verður kr. 2.000 og innifalið í mótsgjaldi er súpa frá honum Issa. En eins og var greint frá mars hefur hann Jóhann Issi Hallgrímsson (Issi) tekið við rekstri golfskálans okkar og tilvalið að kíkja inn til Issa eftir leik og fá sér eitthvað flott og gott í gogginn.

Rástímaskráning á Hólmsvelli hefur verið ábótavant nú í vor og viljum við hvetja kylfinga að skrá sig á rástíma áður en leikur hefst á Hómsvelli og tilkynna sig í skála áður en leikur hefst. Sú nýbreytni verður tekin upp í sumar að við verðum með tvo vallarverði sem koma út á völl og fylgjast með hvort að menn eru búnir að skrá sig á rástíma og hvort að menn eru með leikheimild á vellinum (búnir að tilkynna sig til leiks). Viljum við biðja félagsmenn og aðra kylfinga um að taka vel á móti þessum aðilum og framvísa félagsskírteinum ef þess er óskað. Vallarverðir verða mest á ferðina seinniparts dags og á kvöldin.

Félagsskírteini GS koma í hús 10. maí nk.

Eindagi félagsgjalda GS er liðinn og nú á næstu dögum munum við fjarlægja þá aðila af skrá sem ekki hafa samið um eða greitt árgjaldið. Verða því þessir einstaklingar ekki virkir á golf.is og geta því ekki leikið Hólmsvöll án þess að greiða vallargjald.

Stjórn GS ákvað nú á dögunum að takmarka félagsfjölda í GS við 600 einstaklinga. Eitthvað vantar upp á þá tölu en um leið félagsfjöldin nær 600 munum við loka fyrir skráningar í klúbbinn fyrir árið 2018. Þetta er gert með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi og tryggja aðgang þeirra að Hólmsvelli á þessu stutta golftímabili sem við búum við. Þessi tala verður svo endurskoðuð fyrir árið 2019.

En líkt og hefur komið fram hér að ofan þá er sumarið byrjað hér á Hólmsvelli og bjóðum við kylfinga velkomna á völlinn og í skálann. Frá og með þriðjudeginum 8. maí verður skálinn opinn frá 08:00 til 22:00 fram á haust.

Ef það eru einhverjar frekari upplýsingar sem ykkur vantar er hægt að kíkja á www.gs.is eða einfaldlega senda mér póst á gs@gs.is og ég svara um hæl.

Með golfkveðju
Gunnar Þór Jóhannsson
framkvæmdastjóri GS
846-0666
gs@gs.is

 

 

Scroll to top