Mánuður: desember 2019

Skötuveisla í Leirunni

Skötuveisla verður haldin í hádeginu á Þorláksmessu í Golfskálanum Leiru.

Eins og undanfarin ár verður haldin skötuveisla í Leirunni á Þorláksmessu. Allur ágóði af veislunni rennur til styrktar æfingaferðar hjá börnum og ungmennum GS.

Boðið verður upp á bæði skötu og saltfisk, jólaöl og kaffi. Aðrir drykkir verða seldir á staðnum.

Húsið verður opið frá 11.30 – 14.00. Verð kr. 4.000.

Pantanir og frekari upplýsingar veitir Sigurður Sigurðsson, formaður afreksnefndar, á sigsig[at]mila.is

GS-ingar, styðjum við krakkana okkar og mætum í skötu í Leirunni

Áríðandi tilkynning vegna skráningar 2020

Kæru félagar.

Það eru góðar fréttir frá okkur því klúbburinn hefur tekið í notkun kerfið Nóra fyrir skráningu og innheimtu félagsgjalda. Kerfið hefur verið notað af íþróttafélögum um allt land og fleiri og fleiri golfklúbbar hafa verið að taka kerfið í notkun síðustu ár með góðum árangri. 

Takið eftir að allir félagsmenn GS verða að skrá sig í kerfið fyrir árið 2020.

Félagsmenn skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á slóðinni: gs.felog.is   Og ganga frá greiðslu félagsgjalda fyrir árið 2020. Hægt er að greiða með greiðslukorti eða fá kröfur í heimabanka. 

Öll greiðsla félagsgjalda er rafræn og ganga félagsmenn sjálfir frá greiðslu í gegnum vefinn. 

Greiðsluleiðir:

 • Hægt er að skipta greiðslum í heimabanka í 4 kröfur (kröfurnar birtast með nafni Greiðslumiðlunar í heimabanka).
 • Hægt er að skipta greiðslum með greiðslukorti í allt að 10 skipti (fer eftir hvenær greiðsla byrjar)
 • Þeir sem ganga frá greiðslu í eingreiðslu fyrir 1. janúar fá 5% afslátt af félagsgjöldum. Að auki geta þeir valið um eitt af eftirfarandi (aðeins 27 ára og eldri): Æfingaboltar (20 fötur) – kaffikort fyrir sumarið – 5 bjóra kort.
 • Þeir sem ganga frá skráningu (27 ára og eldri) fyrir 1. febrúar fá innifalið í félagsgjöldum sínum eitt af eftirfarandi: Æfingaboltar (20 fötur) – kaffikort fyrir sumarið – 5 bjóra kort.
 • Áður en greiðsla fer fram býðst félögum að kaupa vörur á lægra verði og haka þá við viðeigandi box. 
 • Einnig gefst félögum kostur á að haka við styrk við klúbbinn um 5.000 kr., 10.000 kr. eða bæði. Bætist þá upphæðin við heildarupphæðina.

Eftirfarandi eru skrefin sem fara þarf:

 • Fara inn á “gs.felog.is”.
 • Ýta á “skrá inn” hægra megin á skjánum.
 • Þá er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli.
 • Velja “ég er félagsmaður” og “jafnframt iðkandi”.
 • Þegar búið er að skrá inn kemur upp síða með nafni þess sem skráði sig inn.
 • Ýta á “skráning í boði” hægra megin á skjánum.
 • Síðan er ýtt á þann flokk sem á við, hægra megin á skjánum.
 • Ef valin er eingreiðsla fyrir 1. janúar reiknast 5% afsláttur sjálfkrafa af félagsgjaldinu ásamt því að hægt er að velja um æfingabolta, kaffikort eða bjórkort sem fylgir með. Ef skráning fer fram fyrir 1. febrúar er hægt að velja í næsta glugga um æfingabolta, kaffikort, bjórkort.
 • Þarna er einnig hægt að velja að kaupa vörur á afslætti en það er í boði fyrir þá sem skrá sig fyrir 1. apríl. Þá er hakað við þá vöru og upphæðin bætist við heildargreiðsluna.
 • Neðar á síðunni er valið um greiðslumáta og fjölda greiðslna.
 • Að lokum þarf að setja hak við “samþykki skilmála” neðst hægra megin og ýta svo á “áfram”.
 • Til að ljúka ferlinu er svo ýtt á “skrá greiðslu”.

 

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi félagsgjöld, greiðslu þeirra eða lenda í erfiðleikum/vantar aðstoð með skráninguna þá vinsamlegast hafið samband við skrifstofu GS í síma 421-4100 eða sendið tölvupóst á gs@gs.is

 

Aðalfundur GS 2019

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fyrir starfsárið 2018-2019 fór fram sl. sunnudag, 1. desember í Leirunni. Um 30 manns mættu og var góð stemning hjá viðstöddum. Jóhann Páll, formaður, fór yfir árið sem gekk mjög vel enda frábært veður og völlurinn í topp standi. Mikið var um mótahald og góð þátttaka meðlima í því sem í gangi var. Fyrsta mótið var haldið um miðjan apríl og það síðasta í lok nóvember. Sigurpáll Geir, íþróttastjóri fór einnig yfir það helsta sem hefur verið í gangi hjá honum. Iðkendum hefur fjölgað og hefur GS aldrei sent eins margar sveitir í Íslandsmót félagsliða. Gaman að segja frá því að 12 ára og yngri sveitin okkar varð Íslandsmeistari annað árið í röð og hinar sveitirnar náðu flestar mjög góðum árangri. Einnig var mikil aukning nýliða sem byrjuðu í klúbbnum sem er gífurlega jákvætt.

Kynntir voru kylfingar ársins hjá GS sem eru eftirfarandi:

Kinga Korpak

Kinga hefur um árabil verið einn fremsti kylfingur landsins í sínum aldursflokki. Þetta sumarið keppti hún minna en oft áður en sannaði sig vel þegar hún mætti til leiks. Hennar helstu afrek árið 2019 eru að verða klúbbmeistari með miklum yfirburðum og einnig spilaði hún mjög vel í íslandsmóti félagsliða og það var ekki síst henni að þakka að 5. sæti náðist í 1. deild.

Logi Sigurðsson

Logi Sigurðsson er efnilegur og metnaðarfullur kylfingur sem hefur aðeins stundað keppnisgolf í 3 ár. Árið 2019 var gott hjá Loga og endaði hann m.a. í 11. sæti á Íslandsmóti unglinga í flokki 17-18 ára og var Logi þar á yngra ári. Einnig stóð hann sig vel á sterku móti sem heitir Reykjavík Junior Open en þar endaði hann í 6. sæti.

Logi tók þátt í Tulip Golf Challenge mótinu í Hollandi í október. Þetta mót er feykisterkt og telur inn á heimslista áhugamanna. Logi spilaði nokkuð vel og endaði þar í 48. sæti. Forgjöf Loga lækkaði á árinu úr 6,2 niður í 2,5 sem er einstakt á einu sumri.

Óskum við Kingu og Loga hjartanlega til hamingju.

 

Andrea, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning klúbbsins sem sýndi jákvæða aukningu á helstu tölum. Sjá ársreikning

 

Fjórir stjórnarmeðlimir voru kosnir á síðasta aðalfundi til tveggja ára og munu því sitja áfram næsta ár:

 • John Steven Berry
 • Guðni Sigurðsson
 • Sigríður Erlingsdóttir
 • Gunnar Þór Jóhannsson

Eftirfarandi aðilar voru svo kosnir á fundinum til tveggja ára:

 • Sigurður Sigurðsson
 • Sveinn Björnsson
 • Rúnar Óli Einarsson
 • Karítas Sigurvinsdóttir

 

Jóhann Páll Kristbjörnsson lét af formennsku en hann hefur starfað 6 ár í stjórn GS, þar af 5 sem formaður. Viðstaddir þökkuðu Jóhanni fyrir framlag hans til klúbbsins og velvilja. Nýr formaður var kjörinn og boðinn velkominn til starfa. Ólöf Kristín Sveinsdóttir mun taka við formannskeflinu og bjóðum við hana velkomna til starfa hjá GS. 

 

Scroll to top