Höfundur: Jóhann Páll

Airport Associates gefur klúbbnum sjónvarp

Ægilegt ástand skapaðist í klúbbhúsinu þegar sjónvarpið gaf upp öndina í miðri Heimsmeistarakeppni. Framkvæmdastjórinn auglýsti á spjallinu hvort einhver velviljaður félagsmaður gæti brugðist við þessari krísu og lánað klúbbnum sjónvarp. Forstjóri Airport Associates sá póstinn og var ekki lengi að bregðast við, Airport Associates gaf Golfklúbbnum sjónvarp og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Áfram Ísland!
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður

Hola í höggi á þjóðhátíðardaginn

Það er óhætt að segja að óvæntir hlutir séu að gerast þessa dagana:

  • Ísland gerir jafntefli við Messi og félaga
  • Þýskaland tapar fyrir Mexíkó
  • Brasilía og Sviss gera jafntefli
  • og Johan D. Jonsson fer holu í höggi á Bergvíkinni 🙂

Það er nú ekki á hverjum degi sem farin er hola í höggi á einni allra fallegustu golfholu landsins – innilega til hamingju með afrekið Johan!!!

Búið að draga í Bikarkeppni GS 2018

Á eftirfarandi tengli má sjá hvaða viðureignir eru framundan (ath. að tólf fyrstu leikina þarf að leika í 64 manna úrslitum, aðrir sitja hjá þar til í 32 manna).
Bikarkeppni 2018


Umferðir:

1. umferð (64 manna) skal lokið 2. júlí kl 15:00
2. umferð (32 manna) skal lokið 16. júlí kl 15:00
3. umferð (16 manna) skal lokið 30.júlí kl 15:00
4. umferð (fjórðungsúrslit) skal lokið 6. ágúst kl 15.00
5. umferð (undanúrslit) skal lokið 13. ágúst kl 15:00
6. umferð (úrslitaleikurinn) fer fram helgina 18.–19. ágúst

Tveggja skipta golfnámskeið endurtekið

Vegna mikillar eftirspurnar ætlum við að endurtaka leikinn.
Sigurpáll Sveinsson og Andrea Ásgrímsdóttir PGA-kennarar ætla að bjóða uppá tveggja skipta námskeið þar sem ýmist er farið yfir stutta spilið, langa spilið eða bæði. Þessi námskeið eru fyrir kylfinga á öllum getustigum.

Námskeið nr. 1. Járnahöggin tekin fyrir í fyrri tímanum og dræver og brautartré í seinni tímanum.
Dags. 19. og 26. júní kl. 19-20.
Námskeið nr. 2. Stutta spilið tekið fyrir í fyrri tímanum og járn og dræver tekið fyrir í seinni tímanum.
Dags. 19. og 26. júní kl. 20-21.

Mæting við golfkálann í Leirunni.

Skráning hjá sp@gs.is

Verð: 5.000 kr.

Umgengni og fleira sem viðkemur Hólmsvelli

Ágætu félagar, nú (loksins) er golftímabilið hafið af krafti og því gott að minnast á nokkur atriði í sambandi við golfvöllinn okkar.

  • Umgengni um völlinn má alltaf bæta; laga kylfuför á brautum (og utan), raka glompur og muna að nota flatargaffalinn. Verum þakklát fyrir okkar glæsilega völl og höldum honum góðum.
  • Hólmsvöllur er ekki æfingavöllur, það er ekki leyfilegt að æfa innáhögg og slíkt á vellinum til þess eru æfingasvæðin okkar. Ef rólegt er á vellinum mega kylfngar leika að hámarki tveimur boltum og þá með leyfi ræsis.
  • Muna að skrá sig á rástíma og tilkynna sig áður en leikur hefst. Engum er leyfilegt að leika Hólmsvöll án þess að vera skráður á rástíma og hafi gert vart við sig hjá ræsi áður en haldið er á teig.
  • Hólmsvöllur er í frábæru standi enda eru færir vallarstarfsmenn starfandi hjá klúbbnum, vallarstjóri og vallarnefnd. Þessir aðilar bera ábyrgð á því hve góðan völl við höfum til að leika. Kylfingar eru beðnir að virða þeirra verksvið og vera ekki að hrófla við teigum og öðru sem vallarstarfsmenn hafa stillt upp, þetta á sérstaklega við rauðan teig á 2. braut og bláan teig á 18. braut.

Mótamál:

Golfklúbbur Suðurnesja heldur tvö Íslandsmót í ár. Dagana 22.–24. júní verður Íslandsmót í höggleik unglinga haldið í Leirunni og helgina eftir það, 29. júní til 1. júlí, verður Íslandsmótið í holukeppni á Hólmsvelli. Sem fyrr verður þörf á sjálfboðaliðum við þessi mót og þeir sem geta lagt hönd á plóginn eru beðnir að hafa samband við skrifstofu. Þá styttist í Meistaramót GS sem verður haldið dagana 4.–7. júlí – félagar eru hvattir til að taka þátt í þessum hápunkti golfstarfs klúbbsins.


Að lokum vil ég minnast á að þeir sem hafa ekki staðið skil á eða samið um félagsgjöldin sín verða gerðir óvirkir á golf.is mánudaginn 18. júní n.k.

Það er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu GS til að ganga frá eða semja.

Bestu golfkveðjur,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja

Bikarkeppni GS 2018

Skráning er hafin í Bikarkeppni GS 2018.

Fyrsta umferð Bikarkeppninnar hefst miðvikudaginn 20. júní.

Skráning í mótið fer fram á golf.is og er hægt að skrá sig til leiks fram á hádegi sunnudaginn 17. júní. Fyrirkomulag er holukeppni með forgjöf.

Sunnudaginn 17. júní verður svo dregið í viðureignir í golfskálanum. Þátttakendur eru hvattir til að vera viðstaddir dráttinn en hann verður einni í beinni á Facebook-síðu Golfklúbbsins.

Núverandi bikarmeistari GS er Óskar Halldórsson og eru einhverjar líkur á að hann langi að vinna bikarinn þriðja árið í röð.

Kvennamót BIO EFFECT

Sunnudaginn 3. júní n.k. fer fram Opna BIOEFFECT kvennamótið á Hólmsvelli í Leiru. Veitt verða verðlaun fyrir sex efstu sætin í punktakeppni og efsta sætið í höggleik án forgjafar. Einnig verða veitt nándarverðlaun á tveimur par-3 brautum og lengsta drive. Dregið verður úr skorkortum í mótslok.

Allir þátttakendur í mótinu fá teiggjöf frá BIOEFFECT.
Ræst verður út af öllum teigum kl. 11:00 og er mæting eigi síðar en kl: 10:30. Veitingar verða í boði fyrir og eftir mót.
Skráning í mótið fer fram á golf.is og verð í mótið er kr: 5.500.-
Vinningarnir eru glæsilegir í boði BIOEFFECT.
1.sæti án forgjafar: BIOEFFECT Lúxus gjafasett
1.sæti með forgjöf: BIOEFFECT Lúxus gjafasett
2.-6. sæti með forgjöf: BIOEFFECT gjafasett
Nándarverðlaunin eru á tveimur par 3 brautum vallarins.

8. hola BIOEFFECT húðvara

16. hola BIOEFFECT húðvara

Lengsta teighögg: BIOEFFECT húðvara
Dregið verður úr skorkortum í lok mótsins. 

Hámarksþátttaka er 92 konur.

www.bioeffect.com
www.facebook.com/BIOEFFECT

Breytt fyrirkomulag í innanfélagsmótum GS

Stjórn Golfklúbbs Suðurnesja hefur ákveðið að reyna nýtt fyrirkomulag í Þ-mótaröðinni 2018. Í öllum Þ-mótunum verður notast við „Ready Golf“, þ.e. sá kylfingur sem er tilbúinn slær án tillits til hver sé lengst frá holu eðahver „eigi teiginn“. Það er von okkar að með þessu fyrirkomulagi megi flýta leik talsvert. Þá eru allir kylfingar hvattir til að leika „Ready Golf“ þegar Leiran er spiluð í sumar.

Með golfkveðju,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja

Scroll to top