Höfundur: Jóhann Páll

Fréttir frá aðalfundi 2018

Aðalfundur GS 2018 fór fram í dag, hann var vel sóttur og fjörugur. Skemmtilegur fundur að baki þar sem skemmtilegar umræður sköpuðust.

Meðal þess helsta sem gerðist á fundinum var eftirfarandi:
Halli var á rekstri klúbbsins, örlítil fækkun félagsmanna og færri leiknir hringir frá árinu 2017. Nýjar reglugerðir fyrir Stigamót GS og Meistaramót GS samþykktar.


Stjórn GS 2019 kosin:

Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður

Áfram sitja: Helga Steinþórsdóttir, Sigurður Sigurðsson, Sigurrós Hrólfsdóttir og Sveinn Björnsson.

Ný í stjórn (til tveggja ára): Guðni Sigurðsson, Gunnar Þór Jóhannsson, John Berry og Sigríður Erlingsdóttir.


Kylfingar ársins:

Úr ársskýrslu formanns: „Kylfingar ársins 2018 eru tveir. Þetta eru báðir frábærir afrekskylfingar sem hafa staðið sig vel í gegnum árin í keppnisgolfi og verið Golfklúbbi Suðurnesja til mikils sóma. En það eru ekki eingöngu hæfileikar og afrek þessara ungu kylfinga sem ræður því að þeir skulu valdir kylfingar ársins. Mér er það mikil ánægja að segja frá því að systurnar Zuzanna og Kinga Korpak hafa GS-hjartað á réttum stað. Síðasta sumar flutti Korpak fjölskyldan í Hvalfjarðarsveit sem er ekki alveg í nánasta nágrenni við Suðurnesin – engu að síður tilkynntu systurnar mér af fyrra bragði að þær ætluðu ekki að skipta um klúbb og muni leika áfram fyrir GS. Að mati stjórnar er þetta hugarfar eitt og sér nóg til að verðskulda titilinn kylfingur ársins 2018.“


Sjálfboðaliði ársins:

Úr ársskýrslu formanns: „Sjálfboðaliði ársins 2018 er einn af þessum aðilum sem er alltaf reiðubúinn að leggja sitt af mörkum. Vinnustundirnar sem hann hefur helgað Golfklúbbi Suðurnesja á undanförnum árum skipta ekki tugum heldur hundruðum – og í sumar varð engin breyting á, jafnvel þó hann hafi ekki verið meðlimur í klúbbnum þetta árið. Sjálfboðaliði ársins er Heimir Hjartarson úr Golfklúbbi Sandgerðis og hlýtur hann sem þakklætisvott GSÍ-kort til eigin nota á næsta ári.“


Ýtarlegri fréttir af fundinum koma á morgun.

Aðalfundur GS á sunnudaginn

Sunnudaginn 2. desember kl. 16.00 verður aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja haldinn í Leirunni

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, meðal þeirra er kosning formanns og fjögurra stjórnarmanna.
Jóhann Páll Kristbjörnsson er einn í framboði til formanns og því sjálfkjörinn, hins vegar gefa fimm kost á sér í stjórn og mun því þurfa að greiða atkvæði um þau. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn GS 18 ára og eldri sem greitt hafa árgjald þess starfsárs sem er að ljúka og mættir eru á aðalfund.

Þessi fimm eru (í stafrófsröð):

Guðni Sigurðsson
Gunnar Þór Jóhannsson
John Berry
Róbert Sigurðarson
Sigríður Erlingsdóttir

Þá mun stjórn leggja fram nýjar reglugerðir á fundinum fyrir Meistaramót GS og Stigamót GS (Þ-mót)

Félagar, fjölmennum á fundinn!

Æfingaferð GS 2019

VITAgolf er mikil ánægja að bjóða GS einstakt tækifæri á æfingaferð til Morgado í Portúgal 6.–13. apríl 2019. Flogið verður til og frá Faro í beinu leiguflugi með ICELANDAIR 6. apríl kl. 08:00 lent í Faro kl. 13:10. Flugtími heim þann 13. apríl er frá Faro kl. 14:10 lent í Keflavík kl. 16:10. Morgado er vestur af Faro og tekur aksturinn frá flugvellinum u.þ.b. 45 mínútur. M.v. flugtíma hér að ofan er hægt að spila eða æfa golf eftir komu fyrsta dag og síðan allan daginn næstu sex daga, það gerir sjö golfdaga í ferðinni.

Með tvo frábæra ólíka 18 holu golfvelli og einstaklega vel hannað æfingasvæði þá er Morgado frábær valkostur fyrir æfingaferð og að auki er stórglæsilegt 4* hótel við golfvellina. Hægt er að skoða allt um svæðið á VITAgolf vefsíðunni hér og á heimasíðu staðarins hér.


Verð fyrir foreldra og aðra fullorðna:

179,900 kr. á mann í tvíbýli
189.900 kr. í einbýli

Verð fyrir ungmenni í æfingum:

159,900 kr. á mann m.v. tvíbýli – þríbýli (auka rúm) sama verð og tvíbýli


Innifalið:

Beint leiguflug til Faro með Icelandair
Flugvallaskattar
Flutningur golfsetts (hámark 15kg) og farangur (hámark 20kg)
Akstur milli flugvallar og hótels
Gisting með morgun- og kvöldverðarhlaðborði
Ótakmarkað golf með GOLFBÍL fyrir fullorðna og golfkerrur fyrir ungmenni í æfingum alla daga. Fararstjórn frá VITAgolf Innifalið er nestispakki í hádeginu og ótakmarkað af æfingaboltum fyrir ungmenni í æfingum.

ATH. EKKI er hægt að nota Icelandair Vildarpunkta í þessari ferð.

Happdrætti Golfklúbbs Suðurnesja

Á morgun, mánudaginn 5. nóvember, munum við hefja sölu á happdrættismiðum til styrktar uppbyggingu fjórðu brautar Hólmsvallar í Leiru, dregið verður 1. desember hjá sýslumanninum í Keflavík.

Eins og flestir muna þá byggði Siglingamálastofnun sjóvarnargarð meðfram fjórðu brautinni fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári. Þrátt fyrir að vel hafi verið gengið frá eftir þessar framkvæmdir situr eftir að Golfklúbburinn fékk með þessu aukið landrými og þarf að ráðast í endurhönnun og -bygginu fjórðu brautarinnar. Eins og staðan er núna er þessi hluti Hólmsvallar verið flakandi sár og lýti á annars frábærum velli. Við viljum reyna að flýta uppbyggingu brautarinnar eins og auðið er, það er kostnaðarsöm framkvæmd og eftir mjög erfitt rekstrarár liggur ljóst fyrir að fjáraflanna er þörf. Nú þegar liggur fyrir erindi um aðstoð hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar og vonumst við til að bærinn sjái þörfina fyrir úrbætur og aðstoði okkur eftir fremsta megni – en fleiri úrræða er þörf.

Með von um góðar viðtökur,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja

Verð á miða er 1.000 kr. / 1.500 miðar prentaðir

Sala happdrættismiðanna fer fram hjá framkvæmdastjóra i síma 846-0666 og á gs[at]gs.is


Vinningaskrá:

1. Gjafabréf frá Icelandair 60.000 kr
2. Gjafabréf frá Icelandair 60.000 kr
3. Gjafabréf frá Icelandair 40.000 kr
4. Gjafabréf frá Icelandair 40.000 kr
5. Gjafabréf frá Icelandair 30.000 kr
6. Gjafabréf frá Icelandair 30.000 kr
7. Fjórir hringir hjá Golfklúbbi Reykjavíkur – gildir út árið 2019 30.000 kr
8. Fjórir hringir á Hvaleyravelli – gildir út árið 2019 30.000 kr
9. Fjóirir hringir hjá Golfklúbbnum Oddi – gildir út árið 2019 30.000 kr
10. Fjórir hringir á Brautarholtsvelli – gildir út árið 2019 25.000 kr
11. Gjafabréf frá Icelandair 15.000 kr
12. Gjafabréf frá Icelandair 15.000 kr
13. Golfkennsla hjá Sigurpáli Geir Sveinssyni – þrjár kennslustundir 12,500 kr
14. Golfkennsla hjá Sigurpáli Geir Sveinssyni – þrjár kennslustundir 12,500 kr
15. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 30 körfur 10,500 kr
16. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 30 körfur 10,500 kr
17. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 30 körfur 10,500 kr
18. Gjafabréf frá Icelandair 10.000 kr
19. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 20 körfur 7.000 kr
20. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 20 körfur 7.000 kr
21. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 20 körfur 7.000 kr
22. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
23. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
24. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
25. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
26. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
27. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
28. Gjafakarfa frá Nóa Síríus 5.000 kr
29. Golfkennsla hjá Sigurpáli Geir Sveinssyni – ein kennslustund 5.000 kr
30. Golfkennsla hjá Sigurpáli Geir Sveinssyni – ein kennslustund 5.000 kr
31. Golfkennsla hjá Sigurpáli Geir Sveinssyni – ein kennslustund 5.000 kr
32. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 10 körfur 3,500 kr
33. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 10 körfur 3,500 kr
34. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 10 körfur 3,500 kr
35. Boltakort hjá Golfklúbbi Suðurnesja – 10 körfur 3,500 kr
Heildarverðmæti vinninga 556.500 kr

Aðalfundur GS 2018

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja 2018 verður haldinn í golfskálanum í Leiru sunnudaginn 2. desember kl. 16.00

Stjórn GS hvetur áhugasama félagsmenn sem vilja starfa í stjórn að hafa samband við Guðmund Rúnar Hallgrímsson sem stýrir uppstillingarnefnd, síminn hjá Rúnari er 898-8299 og netfang grhy7[at]hotmail.com – framkvæmdastjóri GS veitir einnig upplýsingar um allt sem að aðalfundi snýr.


Áhugasömum er bent á að öll framboð til stjórnar þarf að tilkynnna uppstillingarnefnd eða á skrifstofu GS minnst viku fyrir aðalfund.

Lög Golfklúbbs Suðurnesja

Greiðsla félagsgjalda 2019

Stjórn GS hefur ákveðið að bjóða félagsmönnum upp á eftirfarandi valkost:

GSingar geta greitt sama árgjald fyrir árið 2019 og var nú í ár ef þeir greiða í nóvember.
Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri í síma 846-0666 eða í netfangið gs[at]gs.is

Herrakvöld GS 2018

Herrakvöld GS verður haldið föstudaginn 2. nóv n.k og opnar húsið kl 19:00

Boðið verður upp á hið margrómaða sjávarréttarhlaðborð Gunna Palla.

Miðaverð kr. 6.000.

Hægt að panta miða á gs[at]gs.is eða í síma 846-0666

Ert þú næsti framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja?

Staða framkvæmdastjóra Golfklúbbs Suðurnesja (GS) er laus til umsóknar. Framkvæmdastjóri heyrir undir stjórn GS, hann gegnir lykilhlutverki í starfi klúbbsins og hefur yfirumsjón með daglegum rekstri hans.

Meginstarfsemi Golfklúbbs Suðurnesja fer fram í Leirunni. Þar er klúbbhúsið og skrifstofan, Hólmsvöllur (18 holu golfvöllur), Jóel (sex holu æfingavöllur), æfingasvæði, golfverslun og veitingasala. Yfir vetrartímann fer starfsemi klúbbsins að mestu fram í Golfakademíunni við Sunnubraut þar sem fullkomin inniæfingaaðstaða og golfhermir er til staðar.

Starfssvið:

 • Yfirumsjón með og ábyrgð á daglegum rekstri, þar með talið starfsmanannahald, fjármál og samskipti við opinbera aðila
 • Ábyrgð á þjónustu við klúbbmeðlimi sem og almenna kylfinga
 • Gerð fjárhags- og starfsáætlana
 • Upplýsingagjöf og samstarf við stjórn og nefndir klúbbsins

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Háskólamenntun og/eða menntun sem nýtist í starfi
 • Þekking og reynsla af íþróttastarfi
 • Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
 • Færni í mannlegum samskiptum, samskiptahæfni og samstarfsvilji
 • Jákvæðni og þjónustulund
 • Góð íslensku- og enskukunnátta, í töluðu og rituðu máli
 • Haldgóð tölvukunnátta
 • Reynsla af stjórnun

Umsókn skal fylgja greinargóð ferilskrá umsækjanda og kynningarbréf þar sem ástæða umsóknar er tilgreind.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður GS, í síma 771-2121 eða í netfanginu johann[at]gs.is.
Umsóknarfrestur er til 18. nóvember. Umsækjendur þurfa að geta hafið störf þann 1. febrúar. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Umsóknum má skila rafrænt á netfangið gs[at]gs.is.

Scroll to top