Flokkur: Félagsstarf

600

Ingi Þór Ingibergsson skráði sig í Golfklúbb Suðurnesja í gær og varð með því sexhundraðasti félagsmaðurinn

Af því tilefni að félagafjöldi GS rauf 600 félaga múrinn ákvað stjórn GS að bjóða Inga Þór sérstaklega velkominn í klúbbinn og fékk hann af því tilefni boltakort á æfingasvæðið, kennslutíma hjá Sigurpáli og fría þátttöku í Meistaramóti GS sem fer fram í næstu viku. Eins og sjá má var Ingi Þór hinn ánægðasti þegar formaður færði honum tíðindin.

Velkominn Ingi 600!

Kristín Sveinbjörnsdóttir látin

Hinsta kveðja frá Golfklúbbi Suðurnesja:
Kristín Sveinbjörnsdóttir
(13. október 1933 – 9. júní 2019)

Það er svolítið sérstakt að setjast niður og skrifa minningarorð um manneskju sem maður hefur aldrei hitt en á samt svo margt að þakka, það á einmitt við í þessu tilviki. Ég hitti Kristínu aldrei, hins vegar hef ég heyrt margt fallegt um hana sagt enda vann Kristín mikið og óeigingjarnt starf á sínum tíma í þágu golfíþróttarinnar á Íslandi. Starf sem eftir var tekið, ekki aðeins hér á Suðurnesjum heldur á landsvísu. Kristín var um margt merkileg kona sem markaði djúp spor í samtíma sinn og markaði leið þeirra sem á eftir fylgdu, án hennar aðkomu væri golfíþróttin líklega ekki á þeim stað sem hún er í dag.

Kristín var fyrsta konan til að sitja í stjórn Golfklúbbs Suðurnesja og hef ég eftir syni hennar að hún hafi þurft að standa fast á sínu og oft tekist hart á við karlana sem voru við stjórn Golfklúbbsins. Leiran var karlaveldi og það var einkennandi fyrir golf á þeim tíma. Golf var fyrir karla en konur og börn áttu ekkert erindi þangað. Kristín stóð upp í hárinu á körlunum og ávann sér ómælda virðingu fyrir vikið, hún var frumkvöðull í barna- og unglingastarfi á landsvísu og þá stóð hún einnig fyrir fyrstu opnu kvennamótunum sem margir kylfingar sóttu hvaðanæva af landinu. Mótin þóttu það vel heppnuð að karlarnir urðu grænir af öfund og þá kom Kristín á fót móti sem var eingöngu fyrir karla með glæsilegum verðlaunum enda hafði Kristín einstakt lag á að safna góðum verðlaunum í þau mót sem hún kom að. Hún var vinsæl, með góða framkomu og þægilega nærveru – um það eru allir sammála. Barna- og unglingamót þau sem Kristín kom að voru vinsæl, allra vinsælast hjá krökkunum var þó Kristínarmótið sem var fyrst haldið í kringum 1980 og lagðist því miður af í kringum aldamótin síðustu. Þeir kylfingar sem tóku sín fyrstu spor í keppnisgolfi í Kristínarmótinu minnast mótsins með miklum hlýhug og enn í dag ber það reglulega á góma í golfskálanum í Leirunni.
Kristín var jafnframt fyrst kvenna til að taka sæti í stjórn Golfsambands Íslands og var hún heiðruð fyrir störf sín í þágu golfíþróttarinnar með því að sæma hana gullmerki GSÍ, þá var hún einnig sæmd silfurmerki ÍSÍ (Íþróttasambands Íslands).
Kristín flutti austur að Iðu í Biskupstungum árið 1994 og naut efri áranna þar í sveitasælu. Kristín verður jarðsett frá Skálholtskirkju föstudaginn 21. júní kl. 14:00.

Fyrir hönd kylfinga vil ég þakka Kristínu Sveinbjörnsdóttur fyrir hennar mikilvæga framlag til þróunar og uppgangs golfíþróttarinnar á Íslandi, jafnframt votta ég fjölskyldu hennar og vinum mína dýpstu samúð.

Fyrir hönd Golfklúbbs Suðurnesja,
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður.

Framkvæmdir fyrir Meistaramót 2019

Meistaramót GS er rétt handan við hornið og eru nokkur mál sem þarf að klára fyrir það. Stjórn leitar því til sjálfboðaliða og boðar til vinnustundar miðvikudagskvöldið 19. júní kl. 18:00 – pylsur grillaðar eftir vinnutörnina.

Þau verk sem áætlað er að ráðast í eru:

Vinna við skurð undir Vilhjálmsbrú á sextándu braut

Vallarnefnd hefur tekið ákvörðun að fjarlægja hleðslu með skurðinum undir brúnna. Ein kvöldstund með járnköllum og heljarmennum ætti að duga.

Bera á Pálskot (við fyrsta teig) og Tjarnarkot (við tíunda teig)

Vantar nokkra röska GSinga til að bera viðarvörn á þessi tvö hýsi og gera þau aðeins meira lokkandi.

Smiðir óskast

Þar sem til stendur að stækka útisvæðið við inngang klúbbhússins og stækka svalirnar leitum við eftir smiðum til að ýta verkinu úr vör, efnið er tilbúið og eina sem vantar er smá fagmennska. Þetta verkefni þarf ekki endilega að gerast á miðvikudag, fer frekar eftir þeim tíma sem smiðir geta séð af.

Að auki óskar mótsstjórn Meistaramóts eftir sjálboðaliðum til að ræsa út meðan á mótinu stendur


Endilega fjölmennum því margar hendur vinna létt verk, hafið samband við formann (771-2121, johann[at]gs.is) ef þið sjáið ykkur fært að taka þátt.

Frábærar vikur í Leirunni

Það er óhætt að segja að undanfarnar vikur hafi verið frábærar í Leirunni. Hólmsvöllur er í frábæru ástandi þó þurrkur sé aðeins farinn að plaga hann á vissum svæðum, eitthvað sem við þurftum ekki að hafa miklar áhyggjur af í fyrra.

Það er gleðiefni hve góð stemmningin er í félagsstarfinu, ótrúleg fjölgun félaga hefur átt sér stað í upphafi golftímabilsins og fjöldinn allur sótt nýliðanámskeið klúbbsins. Eftir þessa viku hafa nærri eitthundrað kylfingarsótt nýliðanámskeið GS og stór hluti þeirra hefur gengið í Golfklúbbinn, að auki hafa mörg börn verið skráð á barnanámskeið sem munu vera í gangi næstu vikur.

Nýliðaflokkur í Meistaramóti

Til að mæta þessum nýju félögum hefur mótsstjórn Meistaramóts komið saman og er í undirbúningi að hafa sér nýliðaflokk þar sem reyndari kylfingar munu ganga á milli og liðsinna eftir þörfum, nánar um það á næstu dögum.
Mótahald hefur gengið afskaplega vel og nú síðast var haldin hjóna- og parakeppni um helgina í samstarfi við Diamond Suites og geoSilica. Fullt var í mótið og mikil ánægja með það.


Nýir æfingatímar

Ný æfingatafla hefur tekið gildi og hér má sjá hana.

Nýliðakynning 11.–13. júní

Viltu kynna þér golf og fá að prófa?

Þann 11. júní hefst nýliðakynning hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Sigurpáll Geir Sveinsson, PGA-golfkennari og íþróttastjóri Golfklúbbs Suðurnesja, mun kynna golfíþróttina fyrir áhugasömum ásamt því að fara yfir grunnatriði. Námskeiðið miðar að þeim sem langar að prófa golf eða eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Miðað er við nýliða og þá sem hafa ekki náð 35 í forgjöf.

Þriðjudagur 11. júní: Kynning og kennsla
Miðvikudagur 12. júní: Kynning og kennsla
Fimmtudagur 13. júní: Farið á völlinn og spilað

Í boði eru tvær tímasetningar þessa daga:
19:00–20:00
20:00–21:00

Námskeiðið er frítt fyrir meðlimi Golfklúbbs Suðurnesja en aðrir greiða 5.000 kr.
Fyrir þá sem síðan ganga í golfklúbbinn á árinu gengur gjaldið upp í árgjald.

Áhugasamir vinsamlegast skrái sig hér.

Eða sendi tölvupóst á gs@gs.is

Takmarkað sætaframboð og fyrstir koma, fyrstir fá!

Vinna við flatir

Á morgun munu vallarstarfsmenn slá og léttsanda flatir Hólmsvallar. Af þessu mun eitthvað rask hlótast og biðjum við félagsmenn afsökunar á því, hins vegar er þetta hluti af ferlinu við að halda Leirunni jafn góðri og hún er.

Næstu daga munu vallarstarfsmenn strauja flatir til að ná sandinum niður og ætti völlurinn að vera kominn í jafn gott form á mánudag gangi allt eftir.

Hrútalykt í Leirunni

Það verður hrútalykt í Leirunni föstudaginn 31. maí þegar karlkylfingar úr GS og Setbergi munu etja kappi á Hólmsvelli í Leiru.

Þetta verður vonandi fyrsti af mörgum herrahittingum þessara klúbba en konur klúbbanna hafa haldið sambærileg vinkonumót mörg undanfarin ár.

Skemmtilegt mót þar sem eigast við karlkylfingar úr GS og Setbergi.

Keppnisfyrirkomulag er punktakeppni m. forgjöf (hæst gefin 28) og tíu bestu skor hvors klúbbs telja. Að auki verða ýmis aukaverðlaun sem verða kynnt þegar nær dregur.

Kylfingar skrá sig til leiks hjá GS (gs@gs.is) og mun mótsstjórn raða niður á teiga. Allir ræstir út samtímis (Shotgun) um kl. 17, eftir mót verður Fish’n’chips frá Issa og einn kaldur (innifalið í mótsgjaldi).

Nánari upplýsingar veitir formaður í síma 771-2121 eða í tölvupósti.is

Scroll to top