Flokkur: Félagsstarf

Kinga keppir með stúlknalandsliðinu á EM

Stúlknalandsliðið Íslands keppir á Evrópumótinu í golfi sem fram fer á Forsgården vellinum í Svíþjóð dagana 10.-14. júlí. Við megum vera stolt af henni Kingu okkar sem er meðal þeirra sem skipa landsliðið.

Liðið er þannig skipað:

Amanda Guðrún Bjarnadóttir (GHD)
Andrea Ýr Ásmundsdóttir (GA)
Heiðrún Anna Hlynsdóttir (GOS)
Hulda Clara Gestsdóttir (GKG)
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir (GR)
Kinga Korpak (GS)

Óleyfilegt að veiða bolta í Leirunni

Á fundi sínum þann 3. júlí s.l. ákvað stjórn Golfklúbbs Suðurnesja að banna veiðar á golfboltum í tjörnum og fjöru Leirunnar.
Kylfingar mega sækja sinn eigin bolta í torfærur eða út fyrir vallarmörk en umfram það er þeim óheimilt að tína bolta.

Á hverju ári eru leiknir í kringum 20 þúsund golfhringir á Hólmsvellir í Leiru, það eru margir boltar sem lenda þar af leiðandi í Bergvíkinni eða á öðrum lítt spennandi stöðum. Héðan í frá verður það í verkahring vallarstarfsmanna GS að veiða þessa bolta og munu þeir svo vera seldir í golfverslun GS – allur ágóði af sölu vatnaboltanna mun renna óskiptur í barna- og unglingastarf klúbbsins.

Fyrir hönd stjórnar,
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður

Tvö glæsileg Íslandsmót að baki

Síðustu tvær helgar hefur Golfklúbbur Suðurnesja verið gestgjafi tveggja glæsilegra GSÍ-móta, fyrst var það Íslandsmót unglinga í höggleik og nú síðast Íslandsmótið í holukeppni. Bæði mót heppnuðust ágætlega, sér í lagi Íslandsmótið í holukeppni sem fram fór við frábærar aðstæður í Leirunni nú um helgina, veðrið lék kylfinga hins vegar grátt fyrri helgina þegar unglingarnir voru að keppa.

Að baki svona móti liggur mikil vinna, undirbúningur vallarstarfsmanna við að gera Hólmsvöll jafn góðan og raun ver vitni er mikil og þátttaka sjálfboðaliða (sem margir eyddu megninu af sínum vökutíma til að aðstoða) var vel metin. Hæst ber að nefna félaga eins og Snæbjörn Guðna Valtýsson, Sigríði Erlingsdóttur, Jón B. Guðnason, Jón Jóhannsson, Valdimar Birgisson, Svein Björnsson og Nóa Sebastían Gunnarsson, þetta fólk og fleiri félagar gera það mögulegt að halda svona mót og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra framlag – sama á við um starfsfólk GS sem stóð langar vaktir í mótunum.

Ljósmynd: Kylfingur.is/pket


Þó ber skugga á þetta mótahald – það er umgengnin í mótunum og aðdraganda þeirra. Kylfingar sem tóku þátt í þessum Íslandsmótum, áhorfendur og aðrir sem að þeim komu voru allir sammála um að ástand Hólmsvallar væri til fyrirmyndar. Að baki því liggur mikil vinna hjá vallarstjóra og starfsmönnum klúbbsins, því þykir mér dapurlegt að sjá til margra af þessum frábæru kylfingum og hvernig þeir umgangast golfvöllinn og klúbbhúsið. Það er nefnilega eins og margir af þessum bestu og/eða efnilegustu kylfingum landsins (sem eru fyrirmyndir yngri og upprennandi kylfinga) séu yfir það hafnir að leggja torfusnepla í kylfuför, setja sand í kylfuför á teigum eða gera við boltaför á flötum. Áberandi þótti mér hve margir voru að dröslast með kerrurnar sínar uppá teiga, nú veit ég ekki hvort það sé til siðs í þeirra klúbbum en það hefur aldrei tíðkast í Leirunni. Sama á við um klúbbhúsið, þegar maður er búinn með pulsuna er ekki venjan að krumpa bréfið bara saman og henda því á borðið til að auka álagið á starfsfólk veitingasölunnar (þetta var áberandi í unglingamótinu). Ég held að við sem stöndum að golfi á Íslandi ættum að einbeita okkur að því að innræta keppnisfólkinu okkar betri siði. Kannski þurfum við að líta í eigin barm, erum við að sýna þessa framkomu sjálf á golfvellinum? Lögum við boltaför eða rökum glompur? Kylfingar! Tökum höndum saman og bætum umgengnina á golfvöllum landsins, það er svo svekkjandi fyrir þá sem á eftir koma að lenda t.d. í djúpu skófari í glompunni – við þekkjum það flest sjálf. Auðvitað á ofangreint ekki við um nándar nærri alla keppendur – en of marga.

Ég vil að lokum þakka öllum sem tóku þátt í Íslandsmótunum í Leiru 2018 fyrir skemmtileg mót og óska nýkrýndum Íslandsmeisturum og klúbbum þeirra til hamingju með árangurinn.

Með golfkveðju,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja

Meistaramót GS 2018 – Skráning hafin.

Meistaramót Golfklúbbs Suðurnesja 2018 fer fram dagana 4.–7. júlí. Leikið verður með hefðbundnu sniði líkt og undanfarin ár og nálgast má allar upplýsingar um mótið hér í skjölunum að neðan.

Hægt er að skrá sig í mótið á golf.is og þá geta kylfingar einungis skráð sig á rástíma fyrsta daginn en það liggur svo rástímamappa í klúbbhúsi fyrir rástíma á fimmtudeginum. Raðað verður í rástíma á föstudeginum  og laugardegi eftir skori. 

Meistamót GS flokkaröðun og annað 2018

Meistamót GS Keppnisskilmálar 2018

Veglegt lokahóf verður síðan Laugardaginn 7.júlí og er það innifalið í mótsgjaldi.

Airport Associates gefur klúbbnum sjónvarp

Ægilegt ástand skapaðist í klúbbhúsinu þegar sjónvarpið gaf upp öndina í miðri Heimsmeistarakeppni. Framkvæmdastjórinn auglýsti á spjallinu hvort einhver velviljaður félagsmaður gæti brugðist við þessari krísu og lánað klúbbnum sjónvarp. Forstjóri Airport Associates sá póstinn og var ekki lengi að bregðast við, Airport Associates gaf Golfklúbbnum sjónvarp og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Áfram Ísland!
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður

Hola í höggi á þjóðhátíðardaginn

Það er óhætt að segja að óvæntir hlutir séu að gerast þessa dagana:

  • Ísland gerir jafntefli við Messi og félaga
  • Þýskaland tapar fyrir Mexíkó
  • Brasilía og Sviss gera jafntefli
  • og Johan D. Jonsson fer holu í höggi á Bergvíkinni 🙂

Það er nú ekki á hverjum degi sem farin er hola í höggi á einni allra fallegustu golfholu landsins – innilega til hamingju með afrekið Johan!!!

Búið að draga í Bikarkeppni GS 2018

Á eftirfarandi tengli má sjá hvaða viðureignir eru framundan (ath. að tólf fyrstu leikina þarf að leika í 64 manna úrslitum, aðrir sitja hjá þar til í 32 manna).
Bikarkeppni 2018


Umferðir:

1. umferð (64 manna) skal lokið 2. júlí kl 15:00
2. umferð (32 manna) skal lokið 16. júlí kl 15:00
3. umferð (16 manna) skal lokið 30.júlí kl 15:00
4. umferð (fjórðungsúrslit) skal lokið 6. ágúst kl 15.00
5. umferð (undanúrslit) skal lokið 13. ágúst kl 15:00
6. umferð (úrslitaleikurinn) fer fram helgina 18.–19. ágúst

Tveggja skipta golfnámskeið endurtekið

Vegna mikillar eftirspurnar ætlum við að endurtaka leikinn.
Sigurpáll Sveinsson og Andrea Ásgrímsdóttir PGA-kennarar ætla að bjóða uppá tveggja skipta námskeið þar sem ýmist er farið yfir stutta spilið, langa spilið eða bæði. Þessi námskeið eru fyrir kylfinga á öllum getustigum.

Námskeið nr. 1. Járnahöggin tekin fyrir í fyrri tímanum og dræver og brautartré í seinni tímanum.
Dags. 19. og 26. júní kl. 19-20.
Námskeið nr. 2. Stutta spilið tekið fyrir í fyrri tímanum og járn og dræver tekið fyrir í seinni tímanum.
Dags. 19. og 26. júní kl. 20-21.

Mæting við golfkálann í Leirunni.

Skráning hjá sp@gs.is

Verð: 5.000 kr.

Umgengni og fleira sem viðkemur Hólmsvelli

Ágætu félagar, nú (loksins) er golftímabilið hafið af krafti og því gott að minnast á nokkur atriði í sambandi við golfvöllinn okkar.

  • Umgengni um völlinn má alltaf bæta; laga kylfuför á brautum (og utan), raka glompur og muna að nota flatargaffalinn. Verum þakklát fyrir okkar glæsilega völl og höldum honum góðum.
  • Hólmsvöllur er ekki æfingavöllur, það er ekki leyfilegt að æfa innáhögg og slíkt á vellinum til þess eru æfingasvæðin okkar. Ef rólegt er á vellinum mega kylfngar leika að hámarki tveimur boltum og þá með leyfi ræsis.
  • Muna að skrá sig á rástíma og tilkynna sig áður en leikur hefst. Engum er leyfilegt að leika Hólmsvöll án þess að vera skráður á rástíma og hafi gert vart við sig hjá ræsi áður en haldið er á teig.
  • Hólmsvöllur er í frábæru standi enda eru færir vallarstarfsmenn starfandi hjá klúbbnum, vallarstjóri og vallarnefnd. Þessir aðilar bera ábyrgð á því hve góðan völl við höfum til að leika. Kylfingar eru beðnir að virða þeirra verksvið og vera ekki að hrófla við teigum og öðru sem vallarstarfsmenn hafa stillt upp, þetta á sérstaklega við rauðan teig á 2. braut og bláan teig á 18. braut.

Mótamál:

Golfklúbbur Suðurnesja heldur tvö Íslandsmót í ár. Dagana 22.–24. júní verður Íslandsmót í höggleik unglinga haldið í Leirunni og helgina eftir það, 29. júní til 1. júlí, verður Íslandsmótið í holukeppni á Hólmsvelli. Sem fyrr verður þörf á sjálfboðaliðum við þessi mót og þeir sem geta lagt hönd á plóginn eru beðnir að hafa samband við skrifstofu. Þá styttist í Meistaramót GS sem verður haldið dagana 4.–7. júlí – félagar eru hvattir til að taka þátt í þessum hápunkti golfstarfs klúbbsins.


Að lokum vil ég minnast á að þeir sem hafa ekki staðið skil á eða samið um félagsgjöldin sín verða gerðir óvirkir á golf.is mánudaginn 18. júní n.k.

Það er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu GS til að ganga frá eða semja.

Bestu golfkveðjur,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður Golfklúbbs Suðurnesja
Scroll to top