Flokkur: Félagsstarf

Nýtt forgjafarkerfi

Nýtt forgjafarkerfi

 

Síðastliðinn sunnudag, 1. mars, var tekið í notkun nýtt forgjafarkerfi, World Handicap System (WHS).

Vinna við þróun kerfisins hófst árið 2011 með það að markmiði að koma í stað þeirra sex ólíku kerfa sem verið hafa við lýði í heiminum til þessa. Hvert golfsamband ræður hvenær það tekur kerfið í notkun, sums staðar var kerfið innleitt um síðustu áramót, önnur golfsambönd stefna að innleiðingu í vor og enn önnur í haust.

Í WHS forgjafarkerfinu er forgjöfin reiknuð út frá 8 bestu hringjum leikmannsins af síðustu 20. Tekið er tillit til leikaðstæðna á þann hátt að skor leikmanns er leiðrétt m.t.t. almenns skors á viðkomandi velli á leikdegi. Einnig er notast við sérstaka útreikninga til að taka tillit til óvenju góðra skora leikmanna og ákveðnar skorður settar við hækkun forgjafar.

Við innleiðingu WHS kerfisins á Íslandi verður forgjöf kylfinga endurreiknuð, út frá eldri forgjafarhringjum og í samræmi við nýju reglurnar. Byggt verður á öllum forgjafarhringjum sem skráðir eru á golf.is frá 1. janúar 2017. Langflestir kylfingar munu sjá minniháttar breytingar á forgjöf sinni.

Nánari upplýsingar um nýja forgjafarkerfið má finna á vefsíðunni golf.is/forgjof.

 

 

 

Nýtt tölvukerfi golfklúbbanna orðið virkt

Eins og margir vita hefur Golfsamband Íslands gangsett nýtt tölvukerfi golfklúbbanna. Kerfið heitir Golfbox og eru golfklúbbarnir á fullu að innleiða kerfið hjá sér.

Mikilvægt er að þeir kylfingar sem stofna aðgang að kerfinu sýni þolinmæði og átti sig á að ekki eru allir golfklúbbar búnir að setja inn í kerfið upplýsingar um sína golfvelli, rástímaskráningu eða mót.

Áætlað er að innleiðing golfklúbbanna taki einhverjar vikur í viðbót en verði lokið áður en golftímabilið hefst.

 

Hvernig stofna ég aðgang inn á GolfBox?

 1. Ferð inn á www.golf.is.
 2. Smellir á Nýskráning efst í hægra horninu.
 3. Þá opnast vefsíða GolfBox
 4. Slærð inn kennitölu og eftirnafn þitt eins og það er skrifað með íslenskum stöfum.
 5. Smellir á Leita.
 6. Ef þú ert skráð(ur) sem virk(ur) félagi í golfklúbbi í kerfinu ertu látin(n) staðfesta að þetta sért þú og flyst þá yfir á Forsíðuna þína í GolfBox.
 7. Ef upplýsingar um þig birtast ekki við leit hefurðu samband við klúbbinn þinn.

Hvernig breyti ég notandanafni, lykilorði og netfangi?

Þú ferð í Forsíðan mín ofarlega vinstra megin á síðunni.

 1. Smellir á Breyta prófílnum.
 2. Neðarlega á síðunni smellir á Breyta notandanafni og aðgangsorði >.
 3. Slærð inn nýtt notandanafn og lykilorð.
 4. Slærð inn farsímanúmer og netfang.
 5. Smellir á Uppfæra >.

Smelltu hér til að skoða hjálparmyndband við nýskráningu https://youtu.be/sjwTsNUMFVo

Nafnakeppni

Kæru GS félagar.
Eins og mörgum er nú þegar kunnugt um munum við, Golfklúbbur Suðurnesja, sjá sjálf um veitingasöluna í Leirunni næsta árið. Undirbúningur er hafinn af krafti en hugmyndin er að bjóða upp á góðar einfaldar veitingar í kaffihúsastíl. Við viljum að félagsmenn og gestir fái löngun til að setjast niður í huggulegu umhverfi í klúbbhúsinu okkar fyrir eða eftir golfhring og gæða sér á því sem í boði er.
 
Okkur langar mikið til að finna gott nafn sem endurspeglar framangreint. Því hefur verið ákveðið að stofna til nafnakeppni meðal félagsmanna.
Allar hugmyndir skulu koma frá félagsmanni GS, sendast fyrir 1. mars á netfangið gs@gs.is merkt Nafnakeppni. Einnig skal koma fram fullt nafn og símanúmer þess sem sendir hugmyndina.
Búið er að skipa dómnefnd sem mun fara yfir allar innsendar hugmyndir nafnlausar.
Í verðlaun er 10.000 kr. inneign í veitingasölunni – fyrir utan auðvitað heiðurinn að nafninu 😉
Hlökkum til að heyra allar góðu hugmyndirnar 😃

Skötuveisla í Leirunni

Skötuveisla verður haldin í hádeginu á Þorláksmessu í Golfskálanum Leiru.

Eins og undanfarin ár verður haldin skötuveisla í Leirunni á Þorláksmessu. Allur ágóði af veislunni rennur til styrktar æfingaferðar hjá börnum og ungmennum GS.

Boðið verður upp á bæði skötu og saltfisk, jólaöl og kaffi. Aðrir drykkir verða seldir á staðnum.

Húsið verður opið frá 11.30 – 14.00. Verð kr. 4.000.

Pantanir og frekari upplýsingar veitir Sigurður Sigurðsson, formaður afreksnefndar, á sigsig[at]mila.is

GS-ingar, styðjum við krakkana okkar og mætum í skötu í Leirunni

Áríðandi tilkynning vegna skráningar 2020

Kæru félagar.

Það eru góðar fréttir frá okkur því klúbburinn hefur tekið í notkun kerfið Nóra fyrir skráningu og innheimtu félagsgjalda. Kerfið hefur verið notað af íþróttafélögum um allt land og fleiri og fleiri golfklúbbar hafa verið að taka kerfið í notkun síðustu ár með góðum árangri. 

Takið eftir að allir félagsmenn GS verða að skrá sig í kerfið fyrir árið 2020.

Félagsmenn skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á slóðinni: gs.felog.is   Og ganga frá greiðslu félagsgjalda fyrir árið 2020. Hægt er að greiða með greiðslukorti eða fá kröfur í heimabanka. 

Öll greiðsla félagsgjalda er rafræn og ganga félagsmenn sjálfir frá greiðslu í gegnum vefinn. 

Greiðsluleiðir:

 • Hægt er að skipta greiðslum í heimabanka í 4 kröfur (kröfurnar birtast með nafni Greiðslumiðlunar í heimabanka).
 • Hægt er að skipta greiðslum með greiðslukorti í allt að 10 skipti (fer eftir hvenær greiðsla byrjar)
 • Þeir sem ganga frá greiðslu í eingreiðslu fyrir 1. janúar fá 5% afslátt af félagsgjöldum. Að auki geta þeir valið um eitt af eftirfarandi (aðeins 27 ára og eldri): Æfingaboltar (20 fötur) – kaffikort fyrir sumarið – 5 bjóra kort.
 • Þeir sem ganga frá skráningu (27 ára og eldri) fyrir 1. febrúar fá innifalið í félagsgjöldum sínum eitt af eftirfarandi: Æfingaboltar (20 fötur) – kaffikort fyrir sumarið – 5 bjóra kort.
 • Áður en greiðsla fer fram býðst félögum að kaupa vörur á lægra verði og haka þá við viðeigandi box. 
 • Einnig gefst félögum kostur á að haka við styrk við klúbbinn um 5.000 kr., 10.000 kr. eða bæði. Bætist þá upphæðin við heildarupphæðina.

Eftirfarandi eru skrefin sem fara þarf:

 • Fara inn á “gs.felog.is”.
 • Ýta á “skrá inn” hægra megin á skjánum.
 • Þá er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli.
 • Velja “ég er félagsmaður” og “jafnframt iðkandi”.
 • Þegar búið er að skrá inn kemur upp síða með nafni þess sem skráði sig inn.
 • Ýta á “skráning í boði” hægra megin á skjánum.
 • Síðan er ýtt á þann flokk sem á við, hægra megin á skjánum.
 • Ef valin er eingreiðsla fyrir 1. janúar reiknast 5% afsláttur sjálfkrafa af félagsgjaldinu ásamt því að hægt er að velja um æfingabolta, kaffikort eða bjórkort sem fylgir með. Ef skráning fer fram fyrir 1. febrúar er hægt að velja í næsta glugga um æfingabolta, kaffikort, bjórkort.
 • Þarna er einnig hægt að velja að kaupa vörur á afslætti en það er í boði fyrir þá sem skrá sig fyrir 1. apríl. Þá er hakað við þá vöru og upphæðin bætist við heildargreiðsluna.
 • Neðar á síðunni er valið um greiðslumáta og fjölda greiðslna.
 • Að lokum þarf að setja hak við “samþykki skilmála” neðst hægra megin og ýta svo á “áfram”.
 • Til að ljúka ferlinu er svo ýtt á “skrá greiðslu”.

 

Ef einhverjar spurningar vakna varðandi félagsgjöld, greiðslu þeirra eða lenda í erfiðleikum/vantar aðstoð með skráninguna þá vinsamlegast hafið samband við skrifstofu GS í síma 421-4100 eða sendið tölvupóst á gs@gs.is

 

Aðalfundur GS 2019

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fyrir starfsárið 2018-2019 fór fram sl. sunnudag, 1. desember í Leirunni. Um 30 manns mættu og var góð stemning hjá viðstöddum. Jóhann Páll, formaður, fór yfir árið sem gekk mjög vel enda frábært veður og völlurinn í topp standi. Mikið var um mótahald og góð þátttaka meðlima í því sem í gangi var. Fyrsta mótið var haldið um miðjan apríl og það síðasta í lok nóvember. Sigurpáll Geir, íþróttastjóri fór einnig yfir það helsta sem hefur verið í gangi hjá honum. Iðkendum hefur fjölgað og hefur GS aldrei sent eins margar sveitir í Íslandsmót félagsliða. Gaman að segja frá því að 12 ára og yngri sveitin okkar varð Íslandsmeistari annað árið í röð og hinar sveitirnar náðu flestar mjög góðum árangri. Einnig var mikil aukning nýliða sem byrjuðu í klúbbnum sem er gífurlega jákvætt.

Kynntir voru kylfingar ársins hjá GS sem eru eftirfarandi:

Kinga Korpak

Kinga hefur um árabil verið einn fremsti kylfingur landsins í sínum aldursflokki. Þetta sumarið keppti hún minna en oft áður en sannaði sig vel þegar hún mætti til leiks. Hennar helstu afrek árið 2019 eru að verða klúbbmeistari með miklum yfirburðum og einnig spilaði hún mjög vel í íslandsmóti félagsliða og það var ekki síst henni að þakka að 5. sæti náðist í 1. deild.

Logi Sigurðsson

Logi Sigurðsson er efnilegur og metnaðarfullur kylfingur sem hefur aðeins stundað keppnisgolf í 3 ár. Árið 2019 var gott hjá Loga og endaði hann m.a. í 11. sæti á Íslandsmóti unglinga í flokki 17-18 ára og var Logi þar á yngra ári. Einnig stóð hann sig vel á sterku móti sem heitir Reykjavík Junior Open en þar endaði hann í 6. sæti.

Logi tók þátt í Tulip Golf Challenge mótinu í Hollandi í október. Þetta mót er feykisterkt og telur inn á heimslista áhugamanna. Logi spilaði nokkuð vel og endaði þar í 48. sæti. Forgjöf Loga lækkaði á árinu úr 6,2 niður í 2,5 sem er einstakt á einu sumri.

Óskum við Kingu og Loga hjartanlega til hamingju.

 

Andrea, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning klúbbsins sem sýndi jákvæða aukningu á helstu tölum. Sjá ársreikning

 

Fjórir stjórnarmeðlimir voru kosnir á síðasta aðalfundi til tveggja ára og munu því sitja áfram næsta ár:

 • John Steven Berry
 • Guðni Sigurðsson
 • Sigríður Erlingsdóttir
 • Gunnar Þór Jóhannsson

Eftirfarandi aðilar voru svo kosnir á fundinum til tveggja ára:

 • Sigurður Sigurðsson
 • Sveinn Björnsson
 • Rúnar Óli Einarsson
 • Karítas Sigurvinsdóttir

 

Jóhann Páll Kristbjörnsson lét af formennsku en hann hefur starfað 6 ár í stjórn GS, þar af 5 sem formaður. Viðstaddir þökkuðu Jóhanni fyrir framlag hans til klúbbsins og velvilja. Nýr formaður var kjörinn og boðinn velkominn til starfa. Ólöf Kristín Sveinsdóttir mun taka við formannskeflinu og bjóðum við hana velkomna til starfa hjá GS. 

 

Aðalfundur á morgun

Smá áminning um aðalfund GS sem haldinn verður á morgun í golfskálanum í Leiru kl.16.00.
Kosning stjórnar fer fram á fundinum og eru eftirtaldir í framboði:

Formaður:
Ólöf Sveinsdóttir (sjálfkjörin)

Til meðstjórnenda (fjórir kosnir):
Karitas Sigurvinsdóttir
Róbert Sigurðarson
Rúnar Óli Einarsso.
Sigurður Sigurðsson
Sveinn Björnsson

Áfram sitja:
Guðni Sigurðsson
Gunnar Þór Jóhannsson
John Berry
Sigríður Erlingsdóttir

Ég hvet félaga til að fjölmenna á fundinn,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
tilv. fyrrv. formaður

Tvær vikur í aðalfund

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja 2019 verður haldinn sunnudaginn 1. desember nk. í golfskálanum í Leiru og hefst fundurinn kl. 16.00.


Í fimmtu grein laga Golfklúbbsins er gerð grein fyrir dagskrá fundarins:
Störf aðalfundar eru:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár.
3. Reikningar lagðir fram og skýrðir.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Atkvæðagreiðsla um reikningana.
5. Lagabreytingar.
6. Lögð fram tillaga um gjaldskrá.
7. Kosning formanns.
8. Kosning fjögurra stjórnarmanna.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
10. Önnur mál.


Ég vil benda félögum í GS sérstaklega á sjöttu grein sömu laga og lúta að væntanlegum framboðum:
6. grein.
Afl atkvæða ræður á aðalfundi. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn GS 18 ára og eldri sem greitt hafa árgjald þess starfsárs sem er að ljúka og mættir eru á aðalfund. Þeir eru einnig kjörgengir til stjórnarkjörs.
Tilkynningar um framboð til stjórnar þurfa að hafa borist skrifstofu GS minnst viku fyrir aðalfund.

Ég hvet alla félaga í Golfklúbbi Suðurnesja, sem bera hag klúbbsins fyrir brjósti og hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi uppgang hans, að gefa kost á sér til stjórnar- eða nefndarstarfa og tilkynna það formanni uppstillingarnefndar eigi síðar en viku fyrir fund. Fyrir uppstillingarnefndinni fer John Berry og er hægt að senda honum tölvupóst á berry[at]simnet.is eða hafa sambandi við Andreu framkvæmdastjóra á andrea[at]gs.is eða í síma GS, 421-4100.

Tengill á lög Golfklúbbs Suðunesja

Golfferð GS til Penina í Portúgal

Penina er staðsett í vestur hluta Algarve héraðs skamt frá borginni Portimao. Aðrir líflegir bæir í næsta nágrenni við Penina eru Lagos, Lagoa og strandbærinn Carvoeiro. Frá Faro flugvelli til Penina er u.þ.b. klukkutíma akstur.
Penina er heimsþekkt Golfresort staðsett í yndislegri náttúru. Við hótelið eru þrír golfvellir. Keppnisvöllurinn Sir Henry Cotton átján holur. Academy níu holu völlur og Resort níu holu völlur. Á staðnum er glæsilegt, nýtt æfingasvæði sem þegar er talið eitt af þeim betri í Evrópu, púttflöt, vippflöt, sandglompur og flöt til að slá inn á.
Í aðeins fimmtán mínútna fjarlægð frá Penina er stórkostlegur golfvöllur, Onyria Palmares. Völlurinn var nýlega kosinn besti golfvöllur Evrópu og einstakt tækifæri er að prófa þessa perlu í ferðinni. Nánari upplýsingar hjá fararstjóra erlendis.
Penina er ódauðlegur minnisvarði um hinn glæsilega golfvallahönnuð Sir Henry Cotton. Það voru hrísgrjónaakrar á staðnum þegar Sir Henry kom til að hanna golfvöll. Svæðið er nokkuð flatt og fannst Sir Henry þar með ástæða til að planta þónokkuð af trjám og setja inn vatnatorfærur fyrir kylfingana með lengri höggin.

Penina Academy völlurinn er þægilegur níu holu völlur en leynir á sér þar sem stórt vatn er við þriðju par-3 holuna og fjórða er löng par fimm braut. Penina Resort völlurinn er einnig níu holu völlur með trjám og vatnatorfærum rétt eins og keppnisvöllurinn. Á Penina hefur hið þekkta golfmót Portúgal open verið haldið átta sinnum.

Æfingaferð GS til Penina í Portúgal 28. mars – 4. apríl 2020

Flogið verður til og frá Faro í beinu leiguflugi með Icelandair á Boing 757 vél. Brottför er þann 28. mars kl. 08:00 lent í Faro kl. 14:10. Flugtími heim þann 4. apríl er frá Faro kl. 15:10 lent í Keflavík kl. 17:10.
Penina er vestur af Faro og tekur aksturinn frá flugvellinum u.þ.b. 45 mínútur. M.v. flugtíma hér að ofan er hægt að spila eða æfa golf eftir komu fyrsta dag og síðan alla daga næstu sex daga, það gerir 7 golfdaga í ferðinni. Á Penina eru þrír golfvellir: Championship völlur þar sem okkar 18 holur á dag eru bókaðar, 9 holu Resort völlur og 9 holu Academy völlur. Hægt er að skoða allt um Penina svæðið á vefsíðu Vita.

Verð:

179.000 kr. á mann fyrir iðkendur í tvíbýli
199.000 kr. á mann fyrir foreldra í tvíbýli
219.000 kr á mann fyrir foreldra í einbýli

Innifalið:

Beint leiguflug með Icelandair
Flutningur golfsetts (hámark 15 kg) og farangurs (hámark 20 kg)
Akstur milli flugvallar og hótels
Gisting – herbergi með útsýni yfir sundlaug
Morgunverðarhlaðborð.- kvöldverður skiptist á þremur veitingastöðum hótelsins og er 1/2 flaska vín (vín hússins), bjór, gos, vatn og kaffi innifalið öll kvöld.
Veitingastaðirnir The Dunas og Le Grill standa fyrir utan þetta tilboð en hægt er að panta borð þar þegar út er komið.
Nestispakki í hádegi fyrir iðkendur
Ótakmarkaðir æfingarboltar fyrir iðkendur
Ein karfa af æfingarboltum daglega fyrir foreldra (50 boltar)
*Golf með golfbíl fyrir foreldra og golf með kerru fyrir iðkendur alla daga á aðalvellinum og auka golf á níu holu völlunum (ef rástími er laus).
*Ótakmarkað golf: Gestir okkar geta spila ótakmarkað golf á öllum þremur golfvöllum sér að kostnaðarlausu alla spiladagana eingöngu EF rástímar og golfbílar eru lausir. Viðbótar golf við átján holur á dag er ekki hægt að panta fyrirfram og er háð umferð á vellinum.

Bókunarleiðbeingar:

Vinsamlega lesið eftirfarandi ÁÐUR en bókað er: Þegar bókun er gerð er hægt að greiða staðfestingargjald 40.000 kr. eða greiða upp ferðina.
ATH – ekki er hægt að nota vildarpunkta í þessa ferð.
Til að bóka ferðina notið tengilinn hér. Þá kemur upp síða þar sem beðið er um hópanúmer: 3021
ATH. Bókunarfrestur er til 7. janúar 2020

Scroll to top