Reglugerð um liðakeppni GS

FootJoy liðakeppni GS

Liðakeppnin er fyrir alla fullgilda meðlimi Golfklúbbs Suðurnesja. Hver leikmaður má eingöngu vera skráður í eitt lið sem tekur þátt í keppninni.
Liðakeppni GS er keppni á milli golfhópa innan GS. Keppt er í fjórum riðlum og tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í úrslitarkeppni.
Allar umferðir verða leiknar á Hólmsvelli.

Liðsskipan

Hvert lið er skipað sex leikmönnum, en fjórir leikmenn í hverju liði taka þátt í hverri umferð. Tilkynna þarf lið í tölvupósti á gs[at]gs.is minnst viku fyrir mót.

Keppnisfyrirkomulag

Í hverri viðureign eru leiknir þrír leikir; einn fjórmenningur (Foursome) og tveir tvímenningar (Singles):

    Fjómenningur (Foursome): Tvö tveggja manna lið leika sínum bolta. Kylfingar skiptast á að taka upphafshögg og slá síðan til skiptis út holuna. Holukeppni með forgjöf (forgjöf er reiknuð út frá meðalforgjöf liðsins). Liðið sem vinnur fleiri holur vinnur leikinn.
    Tvímenningur (Singles): Þar sem tveir kylfingar mætast í holukeppni með forgjöf. Liðið sem vinnur fleiri holur vinnur leikinn.

Keppt er í holukeppni með forgjöf, hámarksforgjöf karla er 24 og kvenna 28. Sé jafnt eftir 18 holur skal leik haldið áfram þar til annað liðið sigrar.
Óheimilt er að hvíla sama leikmann í tvær umferðir í röð og allir leikmenn liðsins þurfa að leika a.m.k. einn leik. Þeir leikmenn sem eru ekki að keppa mega vera liði sínu til aðstoðar og ráðgjafar (liðsstjórar).

Í fyrstu umferð keppninnar munu öll liðin koma saman í golfskála áður en keppni hefst. Þar verður FootJoy liðakeppnin sett ásamt því að leikfyrirkomulag og leikjaniðurröðun verður kynnt keppendum. Á föstudeginum 26. maí verða upplýsingar um nákvæma niðurröðun leikja og rástíma auglýst á heimasíðu GS. Fyrsta umferð fer þannig fram að ræst verður út af teig kl. 10.00.
Það lið sem stendur uppi sem sigurvegari hlýtur nafnbótina Liðameistari GS. Veglegt lokahóf verður haldið í golfskálanum strax á eftir úrslitaleiknum og verðlaun frá FootJoy veitt.

FootJoy liðakeppni GS hefst sunnudaginn 28. maí. Mótsgjald er 12.000 kr. á lið.

Scroll to top