Ársskýrsla 2018

Góðan dag ágætu félagar.

Nú er komið að því að ljúka þessu mjög svo sérstaka golftímabili. Golfsumarið 2018 í ár fór í raun aldrei almennilega af stað, eins og allir muna vorum við með vindinn í fangið í allt sumar … og rokinu fylgdi oftast rigning og kuldi. Ekki beint til þess gert að draga kylfinga út í golf þó völliurinn hafi verið hinn glæsilegasti.

Stjórn

Starfsárið 2018 var stjórn GS skipuð eftirfarandi félögum:
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, varaformaður
Hilmar Björgvinsson, gjaldkeri
Sigurrós Hrólfsdóttir, ritari
Georg Arnar Þorsteinsson, meðstjórnandi
Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, meðstjórnandi
Helga Steinþórsdóttir, meðstjórnandi
Sigurður Sigurðsson, meðstjórnandi
Sveinn Björnsson, meðstjórnandi

Guðmundur Rúnar, Georg Arnar, Hilmar og Heiður hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn og kann ég þeim öllum bestu þakkir fyrir allt það óeigingjarna starf sem þau hafa lagt til fyrir Golfklúbbs Suðurnesja.

Alls urðu bókaðir fundir þessarar stjórnar tólf á tímabilinu, auk þeirra voru fjölmargir óformlegir fundir haldnir eins og gengur og gerist. Stjórnarfundi sátu stjórn og framkvæmdastjóri og voru þeir allir haldnir hér í golfskálanum í Leiru.

Starfsmannamál

Í ár urðu breytingar á starfmannahaldi klúbbsinns; Gunnar Þór Jóhannsson gegndi starfi framkvæmda- og vallarstjóra en hann mun láta af því starfi á næsta ári. Gunni er búinn að vera hérna meira og minna síðan hann var 13 ára og kunnum við honum bestu þakkir fyrir hans starf. Sigurpáll Geir Sveinsson tók við sem íþróttastjóri verður að segja eins og er að hann hefur fallið afar vel inn hópinn, Birkir Þór Karlsson er umsjónarmaður golfvallar og sá til þess að halda Leirunni glæsilegri í sumar.
Nýr aðili sá um veitingasöluna í ár og tóku félagsmenn honum vel, það gleður mig sérstaklega að tilkynna að búið er að semja um áframhaldandi veru þeirra Issa og Hjördísar í Leirunni á golftímabilinu 2019.
Mestur fjöldi starfsmanna í sumar var 18 manns. Þessu fólki ber að þakka því það gerir okkur hinum kleyft að leika golf á jafn frábærum velli sem Hólmsvöllur er, og hann var í afar góðu standi í ár.

Félagafjöldi

Fjöldi félaga í ár var 535 félagar og er það örlítil fækkun fyrra ári. Það eru um 70% karlar og 30% konur í klúbbnum og meðalaldur um 46 ár.

Hólmsvöllur

Alls voru leiknir 19.000 hringir á Hólmsvelli á árinu, sem er um 5% fækkun frá árinu á undan.
Eins og ég sagði áðan var Leiran í frábæru standi í ár – og höfðu félagar og aðrir sem léku völlinn margoft orð á því við stjórnendur og starfsfólk. Leikið var á sumarflötum frá 20. mars til 20. nóv.

Mótamál

Fyrsta mót ársins var haldið 29. mars þar sem 110 kylfingar skráðu sig til leiks, vormótin urðu fimm talsins og voru öll gríðarlega vel sótt. Haustmótin urðu tvö, það síðara og jafnframt síðasta mót ársins 11. nóvember, þau voru einnig vel sótt.
Þ-mótin urðu aðeins tíu á árinu, það fyrsta 15. maí og lokamótið 8. september.
Stigameistarar í Þ-mótaröð GS 2018 eru:
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, stigameistari í höggleik án forgjafar, stigameistarar í punktakeppni með forgjöf urðu Sigurður Guðmundsson hjá körlum og Guðríður Vilbertsdóttir hjá konum.
Þrjú GSÍ-mót voru haldin á Hólmsvelli í sumar; Íslandsmót unglinga í höggleik, Origo-bikarinn – Íslandsmótið í holukeppni og Íslandsmót golfklúbba 2. deild. Það er því óhætt að segja að margir af Íslands bestu og efnilegustu kylfingum hafi keppt í Leirunni í sumar.
Bikarkeppni GS hófst í júní og stóð Guðmundur Rúnar Hallgrímsson uppi sem sigurvegari eftir úrslitarimmu við Jón Jóhannsson.

Meistaramót GS fór fram að venju í byrjun júlí. Aðeins 90 kylfingar skráðu sig til leiks og má kenna veðri um dræma þátttöku. Samkvæmt venju var haldið veglegt lokahóf í golfskálanum þar sem vinningshafar voru heiðraðir og félagar skemmtu sér saman.
Klúbbmeistarar Golfklúbbs Suðurnesja árið 2018 eru þau Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Zuzanna Korpak.

Heilidarþátttaka í mótum GS á árinu var um 2.900 manns, sem er fækkun frá fyrra ári.

Frá íþróttastjóra

Golfklúbbur Suðurnesja (GS) heldur úti öflugu barna-, unglinga- og afreksstarfi. Iðkendur stunda æfingar frá byrjun nóvember og fram í lok september ár hvert. Yfir vetrartímann fara æfingar fram í íþróttaakademíunni en yfir sumartímann í Leirunni.
Iðkendur æfa þrisvar sinnum í viku á veturna þar sem aðaláhersla er lögð á að bæta færni í leiknum og gera þau klár fyrir sumarið, yfir sumartímann er aðaláherslan á að viðhalda góðum grunni, auka leikskilning og bæta hæfni í að koma betra skori í hús.
GS fór í æfingaferð í apríl á þessu ári. Farið var til Spánar á stað sem heitir Valle Del Este í Almeria-héraði. Þar æfðu iðkendur og spiluðu við bestu aðstæður og er það klárt mál að það verður reynt að fara í slíka ferð á hverju ári. Alls voru tíu iðkendur og tíu foreldrar og GS félagar í þessari ferð og voru allir sammála um að ferðin gekk mjög vel og vonumst við eftir að fleiri komi í ferðina árið 2019.
Iðkendur og foreldrar tóku þátt í fjáröflunum fyrir ferðina og náðu sumir að safna alveg uppí ferðina. Fjáraflanir fyrir ferðina 2019 eru þegar hafnar með jólakortasölu.
Iðkendur voru duglegir að sækja mótaraðir Golfsambands Íslands og þá sérstaklega Íslandsbankamótaröðina og Áskorendamótaröðina. Það er okkar von að iðkendum GS muni fjölga á mótaröðunum á næsta ári. Árangur okkar iðkenda var á köflum mjög góður og á endanum áttum við þrjá kylfinga sem náðu inná topp fimm á stigalista Íslandsbankamótaraðarinnar.

Zuzanna Korpak, 4. sæti í flokki 17–18 ára
Kinga Korpak, 3. sæti í flokki 15–16 ára.
Sveinn Andri Sigurpálsson, 3. sæti í flokki 15–16 ára.

Klúbburinn sendi sveitir í Íslandsmót félagsliða unglinga, karla, kvenna og öldunga. Allar sveitir stóðu sig með prýði og voru klúbbnum til sóma á allan hátt. Hér á eftir kemur svo árangur hverrar sveitar fyrir sig:
Karlasveit GS sigraði 2. deild á sannfærandi hátt og mun spila í deild þeirra bestu á næsta ári.
Kvennasveit GS spilaði í efstu deild og endaði í 5. sæti sem er frábær árangur.
Öldungasveit karla spilaði í efstu deild og endaði í 5. sæti sem er frabær árangur.
Unglingasveit drengja undir 18 ára endaði í 8. sæti af tuttugu sveitum sem er mjög gott miðað við að sveitin var sú yngsta í mótinu.
Barnasveit GS undir 12 ára gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari. Frábær árangur!!!

Það má segja að íþróttastarfið árið 2018 hafi gengið vel þrátt fyrir hræðilega tíð allt sumarið. Iðkendur voru duglegir að sækja æfingar í öllum veðrum. Það er markmið okkar að fjölga iðkendum ár frá ári því það er ljóst að með því að fjölga iðkendum í yngstu aldurhópunum erum við með því að búa til fullborgandi meðlimi framtíðarinnar sem munu svo koma aftur í sinn heimaklúbb með maka og sín börn í starfið. Mig langar að þakka fyrir gott samstarf við starfsmenn GS ásamt afreksnefndinni. Með samstilltu átaki getum við komið GS aftur á kortið sem einum af stóru klúbbunum.

Undir þetta ritar Sigurpáll Geir Sveinsson, íþróttastjóri GS.

Öldungastarf

Öldungaráð skipuðu Óskar Halldórsson, formaður, og Snæbjörn Guðni Valtýsson. Starf nefndarinnar er að mestu þátttöku eldri kylfinga í Þ-mótaröð GS og REK-mótaröðinni ásamt þátttöku sveita klúbbins í Íslandsmóti golfklúbba eldri kylfinga.

Kvennastarf

Kvennaráð skipuðu Sigurrós Hrólfsdóttir, Bryndís Arnþórsdóttir, Dagmar María Guðrúnardóttir, Helga Steinþórsdóttir og Katrín Baldvinsdóttir. Þær stjórnuðu öflugu kvennastarfi í ár en hafa ákveðið að láta gott heita í bili og leyfa öðrum að koma að því á næsta ári.

Golfklúbburinn

Árið 2018 var frekar erfitt í rekstri GS, en því má nú þakka ef svo mætti segja veðrinu.
Tekjur GS lækkuðu um 7% á milli ára en gjöld jukust lítilega.
Kylfingar ársins 2018 eru tveir. Þetta eru báðir frábærir afrekskylfingar sem hafa staðið sig vel í gegnum árin í keppnisgolfi og verið Golfklúbbi Suðurnesja til mikils sóma. En það eru ekki eingöngu hæfileikar og afrek þessara ungu kylfinga sem ræður því að þeir skulu valdir kylfingar ársins. Mér er það mikil ánægja að segja frá því að systurnar Zuzanna og Kinga Korpak hafa GS-hjartað á réttum stað. Síðasta sumar flutti Korpak fjölskyldan í Hvalfjarðarsveit sem er ekki alveg í nánasta nágrenni við Suðurnesin – engu að síður tilkynntu systurnar mér af fyrra bragði að þær ætluðu ekki að skipta um klúbb og muni leika áfram fyrir GS. Að mati stjórnar er þetta hugarfar eitt og sér nóg til að verðskulda titilinn kylfingur ársins 2018.

Sjálfboðaliði ársins

Eins og ég hef áður sagt þá byggir starf Golfklúbbsins aö miklu leyti á sjálfboðaliðum. Ég ítreka og hvet áhugasama að leggja klúbbnum lið, næg eru verkefnin.
Það verður að segjast eins og er að fjöldi sjálfboðaliða innan klúbbsins er ekki mjög mikill – en þessir fáu, þessi fasti kjarni sem er alltaf boðinn og búinn þegar þörf er á aðstoð telja mikið. Sjálfboðaliði ársins 2018 er einn af þessum aðilum sem er alltaf reiðubúinn að leggja sitt af mörkum. Vinnustundirnar sem hann hefur helgað Golfklúbbi Suðurnesja á undanförnum árum skipta ekki tugum heldur hundruðum – og í sumar varð engin breyting á, jafnvel þó hann hafi ekki verið meðlimur í klúbbnum þetta árið. Sjálfboðaliði ársins er Heimir Hjartarson úr Golfklúbbi Sandgerðis og hlýtur hann sem þakklætisvott GSÍ-kort til eigin nota á næsta ári. Heimir, það þarf fólk eins og þig.

Að lokum

Mig langar að segja að þó golfsumarið 2018 hafi reynst erfitt þá héldum við velli og ég kvíði ekki framhaldinu. Afreksstarfið okkar er komið góðan í farveg og uppbyggingin þar mun skila Golfklúbbi Suðurnesja meisturum í framtíðinni. Stefnan er að auka áherslu á félagsstarfið á næsta ári og gera golfið í Leirunni að enn meiri gleði.

Fyrir hönd stjórnar Golfklúbbs Suðurnesja,
Jóhann Páll Kristbjörnsson
formaður

Scroll to top