Höfundur: Jóhann Páll

Nýliðaflokkur í Meistaramóti 2019

Ákveðið hefur verið að bjóða upp á nýliðaflokk í Meistaramóti GS 2019. Nýliðaflokkur leikur 3×9 holur, frá mánudegi til miðvikudags.

Mikil fjölgun hefur orðið á nýliðum í klúbbnum og nýliðanámskeiðin hans Sigga Palla tókust vonum framar, færri komust að en vildu.

Nýliðaflokkur:

Í nýliðaflokkinn geta allir nýliðar skráð sig, þ.e. þeir sem hafa gengið í klúbbbinn á árinu og einnig þeir sem hafa sótt nýliðanámskeiðin. Rástímar eru áætlaðir frá kl. 17 alla dagana. Vanir kylfingar munu ganga með ráshópunum og liðsinna eftir þörfum.
Innifalið í mótsgjaldi er lokahóf Meistaramótsins (fyrir átján ára og eldri) sem fram fer á laugardagskvöldinu, þar verður glæsilegur kvöldverður fram borinn og verðlaunaafhending fer fram að honum loknum.

Við hvetjum alla nýliða að taka þátt í Meistaramótinu, skemmtilegasta móti ársins, og mæta á lokahófið til að kynnast öllu því skemmtilega fólki sem er í Golfklúbbi Suðurnesja.

Með golfkveðju frá mótssjórn Meistaramóts


Hægt er að skrá sig á golf.is, gs@gs.is eða með því að hringja í golfskálann í síma 421-4100.

Tilkynning frá mótsstjórn Meistaramóts 2019

Á síðasta aðalfundi Golfklúbbs Suðurnesja samþykktu félagar nýja reglugerð um Meistaramót GS.


Helstu áherslubreytingar sem voru gerðar frá fyrri Meistaramótum:

Skráningarfrestur er til klukkan 12.00 daginn fyrir fyrsta keppnisdag.
Mótsstjórn raðar keppendum á rástíma; fyrstu tvo dagana er dregið í ráshópa en seinni tvo dagana ræður skor rástímum (á lokahring sé um þriggja daga mót að ræða).

Mótsstjórn getur veitt undanþágu frá þessari reglu séu rök keppanda sterk og það sé mat mótsstjórnar að undanþága veiti viðkomandi ekki forskot á aðra keppendur. Umsóknir um undanþágur þurfa að berast mótsstjórn í síðasta lagi sunnudaginn 30. júní í tölvupósti á gs[at]gs.is, eftir það verða umsóknir um undanþágur ekki teknar til greina.


Golfbílar eru ekki leyfðir nema keppandi fái undanþágu frá mótsstjórn, undanþágur skulu aðeins veittar þeim kylfingum sem eiga erfitt um leik heilsu sinnar vegna.

Mótsstjórn hefur ákveðið að keppendum í flokki 65 ára og eldri er sjálfkrafa veitt undanþága en aðrir þurfa að sækja um undanþágu hjá mótsstjórn í síðasta lagi n.k. sunnudag í tölvupósti.


Hlökkum til að sjá sem flesta í Meistaramótinu, skemmtilegasta móti ársins!
Golfkveðja frá mótsstjórn

Meistaramótið verður dagana 1.–6. júlí

Meistaramót barna og unglinga verður haldið 1.–3. júlí og einnig flokkur nýliða (nánar auglýst síðar), Meistaramót fullorðinna fer fram 3.–6. júlí og er búið að opna fyrir skráningu á golf.is.

Kylfingar eru beðnir að kynna sér nýja reglugerð sem var samþykkt á síðasta aðalfundi. Helsta breyting frá fyrri Meistaramótum er að nú verður ekki hægt að velja rástíma fyrstu tvo dagana eins og hefur tíðkast.

Áætlaðir rástímar 3. júlí (birt með fyrirvara um fjölda þátttakenda):

Meistaraflokkur karla 8:30-9:20
Meistaraflokkur kvenna 9:30
Öldungaflokkur karla 65+ 9:40-9:50
1. flokkur karla 10:00-10:10
1. flokkur kvenna 10:20-10:30
2. flokkur karla 10:40-11:30
2. flokkur kvenna 11:40-11:50
3. flokkur karla 12:00-12:30
4. flokkur karla 12:40-12:50
Opinn flokkur kvenna (54 holur) 13:00-13:20
Opinn flokkur karla 13:30-13:50
Opinn flokkur kvenna (27 holur) 14:00-14:20

Á öðrum degi snúast rástímar við, þ.e. Opinn flokkur kvenna (27 holur) hefur leik og Meistaraflokkur karla verður síðastur út.

Nándarverðlaun á öllum par 3 brautum Leirunnar í Meistaramóti (næstur holu eftir fjóra daga) – aukaverðlaun fyrir holu í högg (sem telst ekki vera næst holu heldur í holu).

Reglugerð Meistaramóts má lesa hér

Við hvetjum alla GSinga til að taka þátt í þessum hápunkti félagsstarfs klúbbsins,
mótssjórn Meistaramóts

Geysisdeildin er byrjuð að rúlla

Það var vel við hæfi að Geysisdeildin færi af stað á lýðveldisdeginum 17. júní þegar Hinir útvöldu og Forsetar áttust við í rjómablíðu Leirunnar.

Þrátt fyrir að vera án efa laglegasta og best klædda lið deildarinnar (proof me wrong) þá þurftu Forsetar að lúta í gras gegn feikiöflugu liði Hinna útvöldu, 2½–½.

Hinir útvöldu: Þorgeir Ver Halldórsson (fyrirliði), Jóhannes Þór Sigurðsson, Pétur Már Pétursson og Halldór Ragnarsson.
Forsetar: Snæbjörn Guðni Valtýsson (fyrirliði), Sveinn Björnsson, Jóhann Páll Kristbjörnsson og Jóhann Issi Hallgrímsson.

Frá mótsstjórn: Liðsstjórar athugið að fyrstu umferð lýkur 25. júní, ef leikir hafa ekki verið leiknir og úrslit kynnt mótsstjórn fyrir 26. júní verða úrslit leikjanna jafntefli.

Hér má sjá riðla og leiki Geysisdeilarinnar 2019

Fjóla Margrét með brons

Frábær árangur hjá Fjólu (12 ára) sem vann Pamelu Ósk Hjaltadóttur (GR) rétt í þessu 1/0 í leik um þriðja sætið.

Fjóla lék til undanúrslita í morgun gegn Helgu Signý Pálsdóttur (GR) og tapaði þeim leik naumlega á lokaholunni.

Fjóla sýnir það og sannar að æfingin skapar meistarann en hún leggur sig hart fram og er einstaklega iðin og samviskusöm við æfingarnar. Á síðasta ári var hún heiðruð fyrir mestu lækkun forgjafar á lokahófi barna- og unglingahóps GS svo þessi frammistaða kemur svo sem ekkert á óvart. Þessi stelpa á eftir að ná langt.

Riðlar og lið Geysisdeildarinnar 2019

Í gær var dregið í riðla Geysisdeildarinnar og á meðfylgjandi tengli má sjá riðlana, liðin og leikjaröðun.


Einhverrar óvissu gætti hjá yngsta liði keppninnar (meðalaldur rétt rúmlega fermingaraldur) en þau höfðu skilað inn nafninu No Name, endurnefndu þau liðið sitt Champs 2023. Þá hefur liðið Dialed in fengið heimild mótsstjórnar að fullmanna lið sitt áður en þeirra fyrsti leikur hefst.

Smelltu hér til að sjá riðla Geysisdeildarinnar.


Mótsstjóri er Jóhann Páll Kristbjörnsson (johann@gs.is, 771-2121)

Geysir styrkir barna- og unglingastarfið

Golfklúbbur Suðurnesja og Geysir bílaleiga hafa gert samstarfssamning um Geysisdeildina til styrktar barna- og unglingastarfi GS.

Með samningnum er Geysir orðinn stærsti styrktaraðili Golfklúbbs Suðurnesja og um leið helsti styrktaraðili barna- og unglingastarfs en styrkurinn er eyrnamerktur því uppbyggingarstarfi sem GS er að vinna í.
Í kvöld var dregið í riðla í Geysisdeildinni og við það tilefni undirrituðu Margeir Vilhjálmsson og Jóhann Páll Kristbjörnsson samstarfssamninginn fyrir hönd Geysis og GS.

Fyrir hönd Golfklúbbs Suðurnesja og framtíðarkylfinga hans þakka ég Margeiri og bílaleigunni Geysi fyrir þann velvilja sem sýndur er í verki með þessum samningi.

Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs SuðurnesjaSextán lið skráðu sig til leiks í Geysisdeildina og verður færsla um liðin og riðlana sett í loftið á morgun.

Kristín Sveinbjörnsdóttir látin

Hinsta kveðja frá Golfklúbbi Suðurnesja:
Kristín Sveinbjörnsdóttir
(13. október 1933 – 9. júní 2019)

Það er svolítið sérstakt að setjast niður og skrifa minningarorð um manneskju sem maður hefur aldrei hitt en á samt svo margt að þakka, það á einmitt við í þessu tilviki. Ég hitti Kristínu aldrei, hins vegar hef ég heyrt margt fallegt um hana sagt enda vann Kristín mikið og óeigingjarnt starf á sínum tíma í þágu golfíþróttarinnar á Íslandi. Starf sem eftir var tekið, ekki aðeins hér á Suðurnesjum heldur á landsvísu. Kristín var um margt merkileg kona sem markaði djúp spor í samtíma sinn og markaði leið þeirra sem á eftir fylgdu, án hennar aðkomu væri golfíþróttin líklega ekki á þeim stað sem hún er í dag.

Kristín var fyrsta konan til að sitja í stjórn Golfklúbbs Suðurnesja og hef ég eftir syni hennar að hún hafi þurft að standa fast á sínu og oft tekist hart á við karlana sem voru við stjórn Golfklúbbsins. Leiran var karlaveldi og það var einkennandi fyrir golf á þeim tíma. Golf var fyrir karla en konur og börn áttu ekkert erindi þangað. Kristín stóð upp í hárinu á körlunum og ávann sér ómælda virðingu fyrir vikið, hún var frumkvöðull í barna- og unglingastarfi á landsvísu og þá stóð hún einnig fyrir fyrstu opnu kvennamótunum sem margir kylfingar sóttu hvaðanæva af landinu. Mótin þóttu það vel heppnuð að karlarnir urðu grænir af öfund og þá kom Kristín á fót móti sem var eingöngu fyrir karla með glæsilegum verðlaunum enda hafði Kristín einstakt lag á að safna góðum verðlaunum í þau mót sem hún kom að. Hún var vinsæl, með góða framkomu og þægilega nærveru – um það eru allir sammála. Barna- og unglingamót þau sem Kristín kom að voru vinsæl, allra vinsælast hjá krökkunum var þó Kristínarmótið sem var fyrst haldið í kringum 1980 og lagðist því miður af í kringum aldamótin síðustu. Þeir kylfingar sem tóku sín fyrstu spor í keppnisgolfi í Kristínarmótinu minnast mótsins með miklum hlýhug og enn í dag ber það reglulega á góma í golfskálanum í Leirunni.
Kristín var jafnframt fyrst kvenna til að taka sæti í stjórn Golfsambands Íslands og var hún heiðruð fyrir störf sín í þágu golfíþróttarinnar með því að sæma hana gullmerki GSÍ, þá var hún einnig sæmd silfurmerki ÍSÍ (Íþróttasambands Íslands).
Kristín flutti austur að Iðu í Biskupstungum árið 1994 og naut efri áranna þar í sveitasælu. Kristín verður jarðsett frá Skálholtskirkju föstudaginn 21. júní kl. 14:00.

Fyrir hönd kylfinga vil ég þakka Kristínu Sveinbjörnsdóttur fyrir hennar mikilvæga framlag til þróunar og uppgangs golfíþróttarinnar á Íslandi, jafnframt votta ég fjölskyldu hennar og vinum mína dýpstu samúð.

Fyrir hönd Golfklúbbs Suðurnesja,
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður.

Framkvæmdir fyrir Meistaramót 2019

Meistaramót GS er rétt handan við hornið og eru nokkur mál sem þarf að klára fyrir það. Stjórn leitar því til sjálfboðaliða og boðar til vinnustundar miðvikudagskvöldið 19. júní kl. 18:00 – pylsur grillaðar eftir vinnutörnina.

Þau verk sem áætlað er að ráðast í eru:

Vinna við skurð undir Vilhjálmsbrú á sextándu braut

Vallarnefnd hefur tekið ákvörðun að fjarlægja hleðslu með skurðinum undir brúnna. Ein kvöldstund með járnköllum og heljarmennum ætti að duga.

Bera á Pálskot (við fyrsta teig) og Tjarnarkot (við tíunda teig)

Vantar nokkra röska GSinga til að bera viðarvörn á þessi tvö hýsi og gera þau aðeins meira lokkandi.

Smiðir óskast

Þar sem til stendur að stækka útisvæðið við inngang klúbbhússins og stækka svalirnar leitum við eftir smiðum til að ýta verkinu úr vör, efnið er tilbúið og eina sem vantar er smá fagmennska. Þetta verkefni þarf ekki endilega að gerast á miðvikudag, fer frekar eftir þeim tíma sem smiðir geta séð af.

Að auki óskar mótsstjórn Meistaramóts eftir sjálboðaliðum til að ræsa út meðan á mótinu stendur


Endilega fjölmennum því margar hendur vinna létt verk, hafið samband við formann (771-2121, johann[at]gs.is) ef þið sjáið ykkur fært að taka þátt.

Frábærar vikur í Leirunni

Það er óhætt að segja að undanfarnar vikur hafi verið frábærar í Leirunni. Hólmsvöllur er í frábæru ástandi þó þurrkur sé aðeins farinn að plaga hann á vissum svæðum, eitthvað sem við þurftum ekki að hafa miklar áhyggjur af í fyrra.

Það er gleðiefni hve góð stemmningin er í félagsstarfinu, ótrúleg fjölgun félaga hefur átt sér stað í upphafi golftímabilsins og fjöldinn allur sótt nýliðanámskeið klúbbsins. Eftir þessa viku hafa nærri eitthundrað kylfingarsótt nýliðanámskeið GS og stór hluti þeirra hefur gengið í Golfklúbbinn, að auki hafa mörg börn verið skráð á barnanámskeið sem munu vera í gangi næstu vikur.

Nýliðaflokkur í Meistaramóti

Til að mæta þessum nýju félögum hefur mótsstjórn Meistaramóts komið saman og er í undirbúningi að hafa sér nýliðaflokk þar sem reyndari kylfingar munu ganga á milli og liðsinna eftir þörfum, nánar um það á næstu dögum.
Mótahald hefur gengið afskaplega vel og nú síðast var haldin hjóna- og parakeppni um helgina í samstarfi við Diamond Suites og geoSilica. Fullt var í mótið og mikil ánægja með það.


Nýir æfingatímar

Ný æfingatafla hefur tekið gildi og hér má sjá hana.

Scroll to top