top of page

HELSTU MÓT

GOLFKLÚBBS SUÐURNESJA

Stigamót GS

 

Undanfarin ár hafa verið haldin stigamót hjá klúbbnum, stundum kölluð þriðjudagsmót og hefur þátttaka verið góð hjá félagsmönnum. Mótin eru 12 talsins og er hvert stakt mót styrkt af ákveðnu fyrirtæki. Gefin eru verðlaun í hverju móti fyrir sig en stigameistartitlana hljóta þeir sem eru með besta árangurinn í 80% af mótunum. Mótin eru eingöngu fyrir félagsmenn GS en aðilar í öðrum klúbbum hafa fengið aðgang gegn sérstöku gjaldi en hafa þó ekki rétt á verðlaunum. Leikið er bæði í karla- og kvennaflokki og einnig eru gefin verðlaun fyrir besta skor. GS hvetur alla félagsmenn til að taka þátt í þessum mótum enda frábær stemning og leið til að kynnast öðrum félagsmönnum.

 

 

Meistaramót GS

 

Meistaramótið er stærsta innanfélagsmót ársins og sannkölluð golfveisla. Oftast er mótið haldið í byrjun júlí og stendur yfir í um 6 daga. Keppt er í barna-, karla-, og kvennaflokkum og svo getuflokkum svo allir fá tækifæri til að spila við aðra félagsmenn á sama getustigi og þeir sjálfir. Mótið endar á laugardegi með skemmtilegu lokahófi og verðlaunaafhendingu þar sem keppendur hittast og hafa gaman eftir skemmtilega golfviku.

 

Bikarkeppni GS

 

Bikarkeppni GS er mjög skemmtilegt mót og er fyrirkomulagið holukeppni einstaklinga með forgjöf. 64 keppendur geta tekið þátt og er dregið í fyrstu umferð þar sem sigurvegarinn heldur áfram en sá sem tapar hefur lokið leik. Síðan er haldið áfram koll af kolli þangað til einn keppandi stendur eftir sem sigurvegari. Keppnin hefst að vori og lýkur í ágúst.

 

Geysisdeildin

 

Geysisdeildin hóf göngu sína 2019 og vakti mikla lukku meðal keppenda. Fyrirkomulagið er svipað og er í Íslandsmóti golfklúbba GSÍ (sveitakeppni). Þetta er liðakeppni (útsláttarkeppni) þar sem í hverjum leik er leikinn tvímenningur og fjórmenningur. Óhætt er að segja að mikil stemning hafi myndast á leikdögum og við hvetjum alla félagsmenn til að skrá sig til leiks og taka þátt í gleðinni með okkur.

 

Bændaglíman

 

Bændaglíman er lokamót ársins þar sem keppendum er skipt í tvö lið sem keppa í holukeppni. Þetta mót er mest til gamans gert og hefur verið mikil gleði í kringum bæði undirbúning og mótið sjálft. Um kvöldið er svo haldið lokahóf þar sem sumarið er gert upp og sigurvegarar mótaraðanna fá verðlaun ásamt fleiri uppákomum. Frábær skemmtun og endir á sumrinu.

 

Vor- og haustmót GS

 

Ekki er hægt að undanskilja hin vinsælu vor- og haustmót sem haldin eru á Hólmsvelli. Þetta eru opin mót sem hafa verið vinsæl hjá okkur bæði meðal félagsmanna og annarra kylfinga úr öðrum klúbbum. Fjöldi móta fer eftir veðri en reynt er að halda 3 - 5 mót á vorin og annað eins á haustin.

 

Önnur mót 

 

Að auki eru haldin ýmis önnur mót á Hólmsvelli, opin mót, fyrirtækjamót, GSÍ mót og fleira.

bottom of page