top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Fjóla Margrét tvöfaldur Íslandsmeistari og stigameistari

Íslandsmót unglinga fór fram hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar um helgina og átti GS þrjá fulltrúa, Fjólu Margréti, Loga Sigurðsson og Breka Frey Atlason. Logi spilaði í flokki drengja, 19-21 árs og spilaði betur með hverjum deginum en byrjaði á 78 höggum, svo 76 högg og endaði svo á pari vallarins eða 72 höggum. Flottur árangur hjá Loga sem skilaði honum 7. sætinu.


Breki Freyr spilaði í flokki drengja 14 ára og yngri. Þetta var fyrsta reynsla hans á Íslandsmóti og endaði hann í 25. sæti. Góð reynsla fyrir Breka sem kemur sér vel á næsta ári.


Fjóla Margrét spilaði í flokki stúlkna 14 ára og yngri. Hún spilaði mjög stöðugt alla dagana og fór alla hringina þrjá á 76 höggum eða samtals 228 höggum og vann þar með sinn annan Íslandsmeistaratitil í sumar. Eva Kristinsdóttir frá GM var í öðru sæti á 232 höggum. Alveg hreint frábær árangur hjá Fjólu Margréti og óhætt að segja að allar æfingarnar hennar eru að skila sér. Hún hefur því komið með tvo íslandsmeistaratitla til klúbbsins á árinu en hún vann einnig Íslandsmót unglinga í holukeppni í sama flokki.

Að leik loknum í gær voru stigameistarar sumarsins krýndir og sigraði Fjóla Margrét þar með miklum yfirburðum enda sigraði hún í fjórum mótum af þeim fimm sem haldin voru.


Við í GS erum ákaflega stolt af Fjólu og hlökkum mikið til að fylgja henni áfram á hennar vegferð í átt að settum markmiðum.







74 views0 comments

Comentarios


bottom of page