Meistaramót GS er rétt handan við hornið og eru nokkur mál sem þarf að klára fyrir það. Stjórn leitar því til sjálfboðaliða og boðar til vinnustundar miðvikudagskvöldið 19. júní kl. 18:00 – pylsur grillaðar eftir vinnutörnina.
Þau verk sem áætlað er að ráðast í eru:
Vinna við skurð undir Vilhjálmsbrú á sextándu braut
Vallarnefnd hefur tekið ákvörðun að fjarlægja hleðslu með skurðinum undir brúnna. Ein kvöldstund með járnköllum og heljarmennum ætti að duga.
Bera á Pálskot (við fyrsta teig) og Tjarnarkot (við tíunda teig)
Vantar nokkra röska GSinga til að bera viðarvörn á þessi tvö hýsi og gera þau aðeins meira lokkandi.
Smiðir óskast
Þar sem til stendur að stækka útisvæðið við inngang klúbbhússins og stækka svalirnar leitum við eftir smiðum til að ýta verkinu úr vör, efnið er tilbúið og eina sem vantar er smá fagmennska. Þetta verkefni þarf ekki endilega að gerast á miðvikudag, fer frekar eftir þeim tíma sem smiðir geta séð af.
Að auki óskar mótsstjórn Meistaramóts eftir sjálboðaliðum til að ræsa út meðan á mótinu stendur
Endilega fjölmennum því margar hendur vinna létt verk, hafið samband við formann (771-2121, johann[at]gs.is) ef þið sjáið ykkur fært að taka þátt.
Comments