Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fór fram 1. desember og var haldinn í klúbbhúsi félagsins í Leiru. Rúmlega 30 manns sóttu fundinn.
Áður en fundurinn hófst afhenti Ragnhildur Skúladóttir, fulltrúi frá ÍSÍ Ólöfu Kristínu Sveinsdóttur viðurkenningu fyrirmyndarfélags ÍSÍ. Golfklúbbur Suðurnesja er þá formlega í hópi glæsilegra íþróttafélaga sem bera þennan gæðastimpil.
Á fyrri myndinni má sjá Ragnhildi Skúladóttur frá ÍSÍ og Ólöfu Sveinsdóttur, formann GS. Á þeirri seinni eru Logi Sigurðsson og Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, afrekskylfingar í GS.
Ólöf Kristín Sveinsdóttir, formaður GS bauð fundargesti velkomna og stakk upp á Björk Guðjónsdóttur sem fundarstjóra fundarins og Guðrún Þorsteinsdóttir var ritari.
Ólöf Kristín fór svo yfir skýrslu stjórnar og stiklaði á stóru. Veðrið var okkur á suðvestur horninu ekki hliðhollt og endurspeglaðist starfið í heild af því, færri hringir voru spilaðir á árinu frá því í fyrra, færri tóku þátt í mótum o.s.frv. Það má svo auðvitað segja að árið 2020 hafi verið einstaklega gott ár, gott veður og fáir á ferðalögum erlendis vegna Covid. Þrátt fyrir það náðist gífurlega góð stemning í sumar og meistaramót, hjóna- og parakeppnin og fleiri viðburðir voru mjög vel sóttir.
Á árinu var haldið áfram með endurnýjun á tækjum klúbbsins, bæði fyrir völlinn og eldhúsið. 4 nýir golfbílar bættust í hópinn og svo var vélaskemman tekin í gegn.
Klúbburinn á í góðu samstarfi við bæjarfélögin í kringum okkur og er félagið þakklátt fyrir þann stuðning sem við fáum þaðan.
Farið var yfir þau markmið sem stjórn setti sér fyrir tveim árum og stöðuna á þeim verkefnum sem þar komu fram. Sumum verkefnum er lokið, önnur eru hafin og svo einhver sem á eftir að hefja. Allt tekur þetta tíma en það er trú stjórnar að með því að fylgja þessari stefnu takist okkur að ná góðum árangri.
GS er ríkt af sjálfboðaliðum og fyrir það ber svo sannarlega að þakka. Til að mynda tóku GS konur sig til og þrifu allt húsið á vormánuðum og nokkrir GS karlar stækkuðu pallinn við klúbbhúsið, svo eitthvað sé nefnt.
Ný inniaðstaða fer að líta dagsins ljós í gömlu slökkvistöðinni og þar hafa sjálfboðaliðar einnig spilað stórt hlutverk í að koma aðstöðunni upp sem hægt verður að opna á næstu dögum. Þar verður nýr golfhermir ásamt þeim sem var notaður í fyrra, hægt verður að slá í net af þrem mottum og púttaðstaða ásamt kaffistofu. Frábært framtak sem íþróttastjóri hefur leitt með liðsinni frá afrekskylfingum og öðrum sjálfboðaliðum.
Þegar Ólöf var búin að kynna skýrslu stjórnar tók Sigurpáll Geir Sveinsson við og fór yfir skýrslu íþróttastjóra. Hann afhenti svo kylfingum ársins viðurkenningarskjal og verðlaunagrip en það voru þau Fjóla Margrét Viðarsdóttir og Logi Sigurðsson sem fengu þessa nafnbót fyrir árið 2021.
Fjárhagur klúbbsins er góður. Tekjur fyrir starfsárið 2020-2021 voru 137.496.214 kr. og gjöldin voru 113.086.055 kr. Afskriftir 6.000.000 kr. og fjármagnsliðir 140.518 kr. Hagnaður ársins var því 24.269.641 kr. Það má því segja að þrátt fyrir veðrið var þetta frábært fjárhagsár hjá klúbbnum og tækifæri til að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin er. Það er jafnframt stefna hjá stjórn klúbbsins að skuldsetja klúbbinn ekki heldur að haga öllum framkvæmdum miðað við fjárhag. Karitas Sigurvinsdóttir, gjaldkeri klúbbsins fór yfir ársreikninginn en hann er að finna á heimasíðu klúbbsins. Fundurinn samþykkti reikninginn.
Lagabreyting fór fram en 4. greininni var breytt þannig að í stað þess að halda eigi aðalfund í desember var því breytt þannig að halda eigi fundinn í nóvember eða desember.
Tillaga að félagsgjöldum fyrir 2022 var lögð fram og samþykkt en þau verða eftirfarandi:
0-14 ára: 0 kr.
15-18 ára: 14.700 kr.
19-26 ára: 49.000 kr.
27-70 ára: 98.000 kr.
71 árs og eldri: 68.600 kr.
Hjónagjald: 171.500 kr.
Nýliðagjald: 59.000 kr.
Aðilar sem búa utan Suðurnesja eða aukaklúbbsaðild: 78.500 kr.
Fyrir þá sem ganga frá greiðsluskráningu fyrir 1. febrúar og greiða gjald fyrir 27 ára og eldri ásamt nýliðagjaldi fá eitt kaffikort innifalið í gjaldinu.
Notast verður við nýtt innheimtukerfi þar sem Nóra kerfið er ekki lengur í boði. Nýja kerfið heitir Sportabler og koma leiðbeiningar fyrir félaga inn á heimasíðuna á næstu dögum.
Eftirfarandi fjórir stjórnarmeðlimir voru kosnir á síðasta ári til tveggja ára og sitja því áfram:
Arnar Ingólfsson
John Steven Berry
Páll Marcher Egonsson
Róbert Sigurðarson
Á fundinum voru svo kosnir fjórir nýir meðlimir til næstu tveggja ára:
Karitas Sigurvinsdóttir
Sigurður Sigurðsson
Sveinn Björnsson
Örn Ævar Hjartarson
John Steven Berry óskaði eftir að víkja úr stjórn og mun Gunnar Þór Jóhannsson taka hans sæti í það ár sem hann á eftir.
Ólöf Kristín Sveinsdóttir mun halda áfram að gegna embætti formanns.
Júlíus Jón Jónsson og Þröstur Ástþórsson voru kosnir skoðunarmenn og Valur Ketilsson til vara.
Fundi var slitið kl. 19.30
Commenti