Aðalfundur GS 2018 fór fram í dag, hann var vel sóttur og fjörugur. Skemmtilegur fundur að baki þar sem skemmtilegar umræður sköpuðust.
Meðal þess helsta sem gerðist á fundinum var eftirfarandi: Halli var á rekstri klúbbsins, örlítil fækkun félagsmanna og færri leiknir hringir frá árinu 2017. Nýjar reglugerðir fyrir Stigamót GS og Meistaramót GS samþykktar.
Stjórn GS 2019 kosin:
Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður
Áfram sitja: Helga Steinþórsdóttir, Sigurður Sigurðsson, Sigurrós Hrólfsdóttir og Sveinn Björnsson.
Ný í stjórn (til tveggja ára): Guðni Sigurðsson, Gunnar Þór Jóhannsson, John Berry og Sigríður Erlingsdóttir.
Kylfingar ársins:
Úr ársskýrslu formanns: „Kylfingar ársins 2018 eru tveir. Þetta eru báðir frábærir afrekskylfingar sem hafa staðið sig vel í gegnum árin í keppnisgolfi og verið Golfklúbbi Suðurnesja til mikils sóma. En það eru ekki eingöngu hæfileikar og afrek þessara ungu kylfinga sem ræður því að þeir skulu valdir kylfingar ársins. Mér er það mikil ánægja að segja frá því að systurnar Zuzanna og Kinga Korpak hafa GS-hjartað á réttum stað. Síðasta sumar flutti Korpak fjölskyldan í Hvalfjarðarsveit sem er ekki alveg í nánasta nágrenni við Suðurnesin – engu að síður tilkynntu systurnar mér af fyrra bragði að þær ætluðu ekki að skipta um klúbb og muni leika áfram fyrir GS. Að mati stjórnar er þetta hugarfar eitt og sér nóg til að verðskulda titilinn kylfingur ársins 2018.“
Sjálfboðaliði ársins:
Úr ársskýrslu formanns: „Sjálfboðaliði ársins 2018 er einn af þessum aðilum sem er alltaf reiðubúinn að leggja sitt af mörkum. Vinnustundirnar sem hann hefur helgað Golfklúbbi Suðurnesja á undanförnum árum skipta ekki tugum heldur hundruðum – og í sumar varð engin breyting á, jafnvel þó hann hafi ekki verið meðlimur í klúbbnum þetta árið. Sjálfboðaliði ársins er Heimir Hjartarson úr Golfklúbbi Sandgerðis og hlýtur hann sem þakklætisvott GSÍ-kort til eigin nota á næsta ári.“
Ýtarlegri fréttir af fundinum koma á morgun.
Comments