top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Kristín Sveinbjörnsdóttir látin

Hinsta kveðja frá Golfklúbbi Suðurnesja: Kristín Sveinbjörnsdóttir (13. október 1933 – 9. júní 2019)


Það er svolítið sérstakt að setjast niður og skrifa minningarorð um manneskju sem maður hefur aldrei hitt en á samt svo margt að þakka, það á einmitt við í þessu tilviki. Ég hitti Kristínu aldrei, hins vegar hef ég heyrt margt fallegt um hana sagt enda vann Kristín mikið og óeigingjarnt starf á sínum tíma í þágu golfíþróttarinnar á Íslandi. Starf sem eftir var tekið, ekki aðeins hér á Suðurnesjum heldur á landsvísu. Kristín var um margt merkileg kona sem markaði djúp spor í samtíma sinn og markaði leið þeirra sem á eftir fylgdu, án hennar aðkomu væri golfíþróttin líklega ekki á þeim stað sem hún er í dag.

Kristín var fyrsta konan til að sitja í stjórn Golfklúbbs Suðurnesja og hef ég eftir syni hennar að hún hafi þurft að standa fast á sínu og oft tekist hart á við karlana sem voru við stjórn Golfklúbbsins. Leiran var karlaveldi og það var einkennandi fyrir golf á þeim tíma. Golf var fyrir karla en konur og börn áttu ekkert erindi þangað. Kristín stóð upp í hárinu á körlunum og ávann sér ómælda virðingu fyrir vikið, hún var frumkvöðull í barna- og unglingastarfi á landsvísu og þá stóð hún einnig fyrir fyrstu opnu kvennamótunum sem margir kylfingar sóttu hvaðanæva af landinu. Mótin þóttu það vel heppnuð að karlarnir urðu grænir af öfund og þá kom Kristín á fót móti sem var eingöngu fyrir karla með glæsilegum verðlaunum enda hafði Kristín einstakt lag á að safna góðum verðlaunum í þau mót sem hún kom að. Hún var vinsæl, með góða framkomu og þægilega nærveru – um það eru allir sammála. Barna- og unglingamót þau sem Kristín kom að voru vinsæl, allra vinsælast hjá krökkunum var þó Kristínarmótið sem var fyrst haldið í kringum 1980 og lagðist því miður af í kringum aldamótin síðustu. Þeir kylfingar sem tóku sín fyrstu spor í keppnisgolfi í Kristínarmótinu minnast mótsins með miklum hlýhug og enn í dag ber það reglulega á góma í golfskálanum í Leirunni. Kristín var jafnframt fyrst kvenna til að taka sæti í stjórn Golfsambands Íslands og var hún heiðruð fyrir störf sín í þágu golfíþróttarinnar með því að sæma hana gullmerki GSÍ, þá var hún einnig sæmd silfurmerki ÍSÍ (Íþróttasambands Íslands). Kristín flutti austur að Iðu í Biskupstungum árið 1994 og naut efri áranna þar í sveitasælu. Kristín verður jarðsett frá Skálholtskirkju föstudaginn 21. júní kl. 14:00.

Fyrir hönd kylfinga vil ég þakka Kristínu Sveinbjörnsdóttur fyrir hennar mikilvæga framlag til þróunar og uppgangs golfíþróttarinnar á Íslandi, jafnframt votta ég fjölskyldu hennar og vinum mína dýpstu samúð.

Fyrir hönd Golfklúbbs Suðurnesja, Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður.

7 views0 comments

Comments


bottom of page