top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Logi Sigurðsson og Erla Þorsteinsdóttir klúbbmeistarar GS árið 2023

Logi Sigurðsson varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja er meistaramótinu lauk um helgina. Logi lék 72 holurnar á einu höggi undir pari og sigraði örugglega en Sveinn Andri Sigurpálsson varð annar á (+9) og Björgvin Sigmundsson þriðji (+11). Logi spilaði frábært golf á þriðja hringnum þegar hann lék Hólmsvöll á 66 höggum eða sex undir pari. Er þetta í annað skiptið sem Logi er klúbbmeistari GS en hann var einnig meistari árið 2021.


Í ár var enginn þátttakandi í meistaraflokki kvenna þar sem besti kvenkylfingur klúbbsins, Fjóla Margrét Viðarsdóttir fór í vikunni með unglingalandsliðinu á Evrópumót landsliða í Frakklandi. Keppt var því í opnum flokki kvenna án forgjafar og þar sigraði Erla Þorsteinsdóttir nokkuð örugglega á 366 höggum og lék hún stöðugt golf alla fjóra dagana. Erla varð klúbbmeistari í annað sinn en hún var það einnig árið 2003.


Á fyrsta degi mótsins var frekar hvasst en jafnt og þétt batnaði veðrið. Á lokdegi voru veðurguðirnir í sínu besta skapi og veðrið eins og best verður á kosið í Leirunni—sól og blíða allan daginn.


Vallaraðstæður voru frábærar alla daga enda Hólmsvöllur kominn í einstakt keppnisform. Birkir vallarstjóri og starfsmenn hans eiga mikið hrós skilið fyrir vel unnin störf yfir allt mótið en töluverð vinna er á bak við að framkvæma eitt meistaramót, m.a. það sem er gert um miðja nótt eins og vökva flatirnar. Allt gert með því markmiði að tryggja að Hólmsvöllur skarti sínu fegursta.


Sjálfboðaliðarnir stóðu einnig sína vakt með miklum sóma enda fjölmörg verk sem þarf að sinna, græja og gera til að tryggja að meistaramótið gangi hnökralaust fyrir sig og er það ekki sjálfgefið að eiga svona öflugan hóp sjálfboðaliða eins og við eigum hjá Golfklúbbi Suðurnesja.


Veitingabíllinn setti skemmtilegan svip á mótið og fögnuðu eflaust margir þegar bíllinn fór að nálgast. Mótinu var svo slitið á skemmtilegu lokahófi með afhendingu verðlauna og gómsætum kvöldverði að hætti Guðmundar Rúnars.


Mótanefndin þakkar öllum keppendum fyrir þátttökuna sína en í ár voru 40% fleiri félagsmenn sem tóku þátt en árið 2022.


Stefnan er að byggja ofan á frábært meistaramót og er strax komin tilhlökkun um að gera enn betur með meistaramótið árið 2024 á 60 ára afmælisári Golfklúbbs Suðurnesja.






385 views0 comments

Comments


bottom of page