Logi Sigurðsson varð Íslandsmeistari í golfi um helgina þegar hann tryggði sér sigurinn með eins og hálfs metra pútti á lokaholu Urriðavallar á Íslandsmótinu árið 2023. Logi var öruggur með línuna og þrátt fyrir smá skjálfta í púttstrokunni fór kúlan niður um miðja holu og nafnið Logi Sigurðsson staðfest að eilífu í sögubækur Íslenska golfsins.
Logi segir sjálfur að þrátt fyrir fjölmörg skilaboð sem óskuðuð honum til hamingju þurfti hann sjálfur að horfa aftur á útsendinguna í sjónvarpinu til að átta sig á því að hann væri virkilega orðinn Íslandsmeistari í golfi. Logi hefur tvívegis orðið klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja, fyrst árið 2021 og svo aftur nú í sumar. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í höggleik 19-21 árs í fyrra og verður í Vestmannaeyjum um helgina að verja þann titill um helgina.
Það var eftir annan dag mótsins að Logi fór fyrst að gera sér grein fyrir að þann stóri væri hugsanlega í sjónmáli. ‘‘Slátturinn var góður, pútterinn að hitna og öryggið hjá okkur feðgunum farið að aukast. Og þegar það var ljóst að ég væri í lokaráshópnum á lokadeginum vissi ég að ég væri tilbúinn í axla ábyrgðina að gera atlögu að titlinum,, sagði Logi í viðtalinu.
En fyrir lokahringinn var Logi fjórum höggum frá efsta sætinu. Logi gaf tóninn strax á upphafskafla lokahringsins – en hann fékk þrjá fugla á fyrri 9 holunum. Á 12.holu eftir öruggt upphafshögg með sínum trausta hybrid fór Logi í létt viðtal í beinni útsendingu í sjónvarpinu og þegar Logi var spurður hvort hann vissi stöðuna, svaraði Logi í léttum tón ,,já, er með þetta í símanum og ég er að skrá inn skorið,,. og sló svo næst eitt besta högg mótsins og rakk niður stutt pútt fyrir erni á 12. holu og bætti svo enn öðrum fugli við á þeirri 13. Logi var með tveggja högga forskot fyrir lokaholuna og það dugði til sigurs þrátt fyrir að hann tapaði fyrsta höggi dagsins á lokaholunni. Logi lék hringina fjóra á 69-67-71-66 eða samtals 273 höggum sem eru 11 höggum undir pari vallarins. Það verður því nafnið Logi Sigurðsson sem mun bætast við töfluna í golfskálanum í Leiru undir formerkinu Íslandsmeistarar GS.
Í lokin svarað Logi nokkrum spurningum og leyfði okkur að kíkja á hvað hann var með í vopnabúrinu sínu í Urriðaholtinu.
Hvar ertu í náminu? Búinn með fyrsta árið í PGA kennaranum, á tvo ár eftir.
Hvað er á döffinni? Fer til Vestmanneyja til að verja 19-21 árs titilinn. Halda áfram að æfa og svo í september fer ég að vinna hjá Golfsaga sem fararstjóri. Fyrsta ferðin okkar út verður 21.sept og ég treysti á að það verði áfram stappað í ferðirnar. Svo er auðvitað draumurinn að fara í atvinnumennskuna og ég hugsa til að byrja með myndi ég reyna við Q-skólann hjá Nordic Golf Tour.
Hverjir væru með þér í draumahollinu? Afi (Sigurður Albertsson), Tiger Woods og Rory Mcllroy
Golfvellir sem þú hefur aldrei spilað en langar mest að spila? Kiðjaberg á Íslandi og Valderrama erlendis
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi?
Par 3: sextánda í Leirunni þar sem ég fór í fyrsta skiptið holu í höggi.
Par 5: átjánda í Leirunni, geggjað útsýni af hvítum teigum, virkilega sjarmarandi að standa á teig og geta horft yfir allan völlinn:
Par 4: eftir helgina er það klárlega sú átjánda í Oddinum sem er komin efst í huga, ógleymanlegt andartak sem ég fékk að upplifa og deila með föður mínum.
Bestu ráð sem Íslandsmeistarinn getur gefið kylfingum?: Eiginlega tvennt sem ég myndi vilja hvetja golf áhugamenn að hafa í huga ef þeim langar að bæta sig í golfinu. Það er að halda lausara utan um kylfuna og leyfa sér aðeins meiri tíma og þolinmæði í að æfa púttin.
Golfpokinn:
Dræver: Titleist TSR3
3-tré: Titleist 917
Hybrid: Titleist TSi3
Járn: Titleist T100 4-PW
Fleygjárn: Titleist Vokey SM9—50, 54 og 58 gráður
Boltar: Titleist ProV1 merkt Takkó
Pútter: Scott Cameron Notchback
Flatarmerki: GS flatarmerkið
Poki: Ecco
Hanski: Ecco
Skór: Ecco
Drykkurinn: kalt íslenskt vatn
Comments