top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Stöðugar umbætur á Hólmsvelli

Kæru félagar,


Nú fer að styttast í að Hólmsvöllur fari aftur í endanlegan vetrarbúning. Þar sem vélaflotinn fer í yfirhalningu yfir veturinn er nú þegar búið að taka boltavélina úr umferð en nauðsynlegt er fyrir okkur að meta ástandið á boltavélinni og hvort eða hvenær hún fari aftur út í notkun.


Það er enn verið að spila á vellinum sem er ennþá í frábæru ástandi en á þessum árstíma er völlurinn viðkvæmur. Birkir vallarstjóri stefnir á að hafa opið inn á sumarflatir eins lengi og veður leyfir. Því er mikilvægt fyrir gesti að huga að og virða opnunartímann í Golfbox ásamt því, sem er aldrei oft sagt þ.e. laga boltaför á flötunum og setja torfusnepla aftur í kylfuförin.


Á næsta golf ári verður Golfklúbbur Suðurnesja 60 ára og því mörg horn að líta hjá stjórn og starfsmönnum klúbbsins að gera árið 2024 að frábæru afmælisári. Því langar okkur að deila með ykkur nokkrum verkefnum sem eru í vinnslu á vellinum.


Í þessari viku höfum við fengið öflugan liðstyrk frá styrktaraðila golfklúbbsins sem mun aðstoða okkur við undirbúninginn á athvarfinu við fremri teiginn á 15.braut ásamt áframhaldandi vinnu við sjógarðinn á 4.braut. Það er Golfklúbbi Suðurnesja ómetanlegt að fá slíkan stuðning svo hægt sé bæta upplifun og ásýnd Hólmsvallar.


Fljótlega verður farið í að skipta um og setja upp nýjar tröppur við gulu og rauðu teigana á 18.braut. Svo erum við halda áfram með stefnu okkar að fækka glompum á Hólmvelli. Í þessari umferð er verið að loka glompum á sex brautum (4, 7, 10/11, 12, 14 og 17) og umbreyta glompum á tveimur holum (1, 11). Á myndinni fyrir neðan sést hvar á holunum umræddar glompur eru.


Það eru fimm ástæður sem við horfum í þegar við metum hvort eigi að loka eða umbreyta glompum:


1. Rekstrarkostnaður: Frá janúar 2016 hefur golfklúbburinn greitt yfir 23m kr. fyrir sand og áburð. Að sinna yfir sextíu glompum er einnig tímafrek og kostnaðarsöm aðgerð hjá starfsmönnum klúbbsins. Í fjárfestingarstefnu klúbbsins er glompurökunarvél sem er hugsuð til að bæði bæta gæði vallarins og lækka rekstrarkostnað til lengri tíma litið.

a. 10/11.braut: fyrir ofan hvíta teiginn á 10.braut en sem tilheyrir 11.braut er frekar djúp glompa sem verður lokuð og mótuð í landslagið sem er á svæðinu. Þessi glompa telst hvorki vera flatar eða brautarglompa, er lítið í leik og stærðarinnar vegna er glompan illa hentug fyrir glompurökunarvél.


2. Ásýnd: Eitt af mikilvægustu atriðunum við að gera golfvöll að frábærum golfvelli er að golfvöllurinn passi vel inn í umhverfið sitt—það er okkur efst í huga í öllum umræðum um hugsanlegar umbætur á vellinum.

a. 17.braut: við munum loka brautarglompunni á 17.braut og móta þar í stað lítinn hól í anda svæðisins og fylgjum þar með á eftir breytingunni frá því fyrr í sumar á 18.braut.


3. Sögulegt gildi og hlutverk: Það eru glompur enn í notkun á vellinum þrátt fyrir að þeirra upphaflega hlutverk hefur tekið á sig mikla breytingu.

a. 4. braut: með þeim, ef ekki elstu glompa á vellinum fær nýtt hlutverk í vallarmatinu. Glompan verður mótuð í hól þannig að landslagið mun skyggja á innáhöggið hjá þeim sem eru að koma inn frá 5.braut.

b. 7.braut: flatarglompan sem var á sínum tíma brautarglompa verður lokuð og mótuð í samræmi við núverandi landslag við flötina.

c. 12.braut: brautarglompa sem var á sínum tíma flatarglompa verður lokuð og mótuð í samræmi við núverandi röff á svæðinu.


4. Ástandsskoðun: Það er mikilvægt að glompur veiti kylfingum sanngjarna áskorun og því skoða starfsmenn golfklúbbsins reglulega glompurnar og sinna reglubundnu viðhaldi. Þegar glompa er farin að sýna merki um slit eða jafnvel valda tjóni á vélbúnaði er nauðsynlegt fyrir okkur að bregðast við og meta þörfina og næstu skref.

a. 1.braut: hægra megin við flötina eru tvær glompur sem verða sameinaðar í eina glompu til að einfalda umhirðu á svæðinu.

b. 11.braut: við munum umbreyta flatarglompunni á 11.braut úr einni glompu yfir í tvær minni glompur. Neðri hlutinn nær brautinni hefur verið að síga og sandur að fjúka út á völl og verður sá hlutur lokaður. Restin af glompunni verður svo skipt í tvennt þannig að kylfingar geti framvegis gengið á milli þeirra yfir á 12.braut.

c. 14.braut: við munum loka brautarglompunni sem er næst flötinni. Í staðinn fyrir að fara í umbætur á glompunni verður henni umbreytt í hól sem verður áfram í vallarmatinu. Hóllinn mun einnig falla betur í umhverfið þar sem það er fyrirhugað að þrengja brautina.


5. Heimsmarkið Sameinuðu þjóðanna: Umhverfis og sjálfbærni eru meðal stærstu verkefna nútímans og þegar við fækkum glompum erum við þátttakendur í því verkefni og drögum í leiðinni markvist úr kolefnisspori Golfklúbbs Suðurnesja.


Með þessum aðgerðum vinnum við áfram í að uppfæra golfvöllinn okkar og það hefði aldrei verið hægt nema fyrir vilja góðra styrktaraðila sem hafa gefið golfklúbbnum töluvert af efni í ár.








647 views0 comments

Comments


bottom of page