top of page

Sumarið í loftinu – Golfklúbbur Suðurnesja opnar inn á sumarflatir 12. apríl

  • Writer: Golfklúbbur Suðurnesja
    Golfklúbbur Suðurnesja
  • Mar 31
  • 2 min read

Nú er sumarið rétt handan við hornið – sólin farin að hækka á lofti, frostið hopar undan funanum og grasflatir grænka. Það er því með mikilli gleði sem Golfklúbbur Suðurnesja tilkynnir að Hólmsvöllur í Leiru opnar inn á sumarflatir fyrir almenna umferð laugardaginn 12. apríl.


Að sögn Birkis vallarstjóra kemur völlurinn afar vel undan vetri. Búið er að bera á og valta flatir og teiga, og segir hann Bergvíkina í sínu besta vorástandi í áraraðir. Örfáir blettir á vellinum fá aðhlynningu næstu daga, og flatir og teigar verða einnig sandaðir á næstunni.


Þótt völlurinn hafi verið opinn samkvæmt vetrarreglum, jafnast fátt á við að slá af brautum og pútta á sumarflötum. Við biðlum þó til kylfinga um að sýna aðgát og virða vetrarreglur fram að opnun: færið boltann af brautum og út í kargann, forðist að slá af teigum eða inn á sumarflatir. Öll kylfu- og boltaför sem myndast nú geta fylgt okkur langt fram á sumar – og ekki gleyma að skrá ykkur á rástíma!


Mótasumarið í Leirunni

Mótadagskráin er aðgengileg í Golfbox og skráning fer þar fram – við hvetjum kylfinga til að tryggja sér þátttöku tímanlega, enda verður opnað fyrir mótin fyrr en áður.


Fyrsta Stigamót ársins fer fram 20. maí og kvennagolfið hefst 28. maí – þar sem gleðin og samveran eru í forgrunni. Meistaramótið, hápunktur sumarsins hjá mörgum, verður haldið dagana 13.–16. ágúst. Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt og gera þetta að sannkölluðu golfveisluhelgi – í fyrra tóku 142 félagsmenn þátt, og við stefnum á enn fjölmennari þátttöku í ár!


Leiran heldur áfram að slá í gegn á landsvísu. Klúbburinn lagði fyrr í vetur fram frumkvæði að sameiningu GSÍ-móta fyrir eldri kylfinga – og árangurinn lætur ekki á sér standa: dagana 21.–23. ágúst fáum við til okkar tvö GSÍ mót í einni helgi, þegar Íslandsmót golfklúbba 50 ára og eldri fer fram – með 1. deild karla og 2. deild kvenna á Hólmsvelli.


Við hlökkum til að sjá ykkur í Leirunni í sumar – þar sem grænar flatir, góðir félagar og sól í baki eru loksins innan seilingar!






 
 
 

Comments


bottom of page