top of page
Writer's pictureGolfklúbbur Suðurnesja

Umgengni og fleira sem viðkemur Hólmsvelli

Ágætu félagar, nú (loksins) er golftímabilið hafið af krafti og því gott að minnast á nokkur atriði í sambandi við golfvöllinn okkar.

  1. Umgengni um völlinn má alltaf bæta; laga kylfuför á brautum (og utan), raka glompur og muna að nota flatargaffalinn. Verum þakklát fyrir okkar glæsilega völl og höldum honum góðum.

  2. Hólmsvöllur er ekki æfingavöllur, það er ekki leyfilegt að æfa innáhögg og slíkt á vellinum til þess eru æfingasvæðin okkar. Ef rólegt er á vellinum mega kylfngar leika að hámarki tveimur boltum og þá með leyfi ræsis.

  3. Muna að skrá sig á rástíma og tilkynna sig áður en leikur hefst. Engum er leyfilegt að leika Hólmsvöll án þess að vera skráður á rástíma og hafi gert vart við sig hjá ræsi áður en haldið er á teig.

  4. Hólmsvöllur er í frábæru standi enda eru færir vallarstarfsmenn starfandi hjá klúbbnum, vallarstjóri og vallarnefnd. Þessir aðilar bera ábyrgð á því hve góðan völl við höfum til að leika. Kylfingar eru beðnir að virða þeirra verksvið og vera ekki að hrófla við teigum og öðru sem vallarstarfsmenn hafa stillt upp, þetta á sérstaklega við rauðan teig á 2. braut og bláan teig á 18. braut.

 

Mótamál:

Golfklúbbur Suðurnesja heldur tvö Íslandsmót í ár. Dagana 22.–24. júní verður Íslandsmót í höggleik unglinga haldið í Leirunni og helgina eftir það, 29. júní til 1. júlí, verður Íslandsmótið í holukeppni á Hólmsvelli. Sem fyrr verður þörf á sjálfboðaliðum við þessi mót og þeir sem geta lagt hönd á plóginn eru beðnir að hafa samband við skrifstofu. Þá styttist í Meistaramót GS sem verður haldið dagana 4.–7. júlí – félagar eru hvattir til að taka þátt í þessum hápunkti golfstarfs klúbbsins.

 

Að lokum vil ég minnast á að þeir sem hafa ekki staðið skil á eða samið um félagsgjöldin sín verða gerðir óvirkir á golf.is mánudaginn 18. júní n.k.

Það er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu GS til að ganga frá eða semja.

Bestu golfkveðjur, Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður Golfklúbbs Suðurnesja

2 views0 comments

Comentarios


bottom of page