Íslandsmótið í golfi 2024 fer fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja.
Samningur þess efnis var undirritaður í gær og fer mótið fram dagana 18.-21. júlí á næsta ári.
Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ og Sveinn Björnsson, formaður GS, undirrituðu samninginn á Grand hótel í Reykjavík þar sem að málþing um mótamál fór fram.
Golfklúbbur Suðurnesja á langa sögu sem gestgjafi Íslandsmótsins í golfi.
GS hefur haldið Íslandsmótið í golfi í karlaflokki alls 10 sinnum og 8 sinnum í kvennaflokki.
Þegar Íslandsmótið hefst á næsta ári verða rúm 13 ár liðinn frá því að Íslandsmótið í golfi fór síðast fram á Hólmsvelli í Leiru.
Árið 1967 fór Íslandsmótið í golfi í fyrsta sinn fram á Hólmsvelli í Leiru en þá var fyrri hluti mótsins í karlaflokki leikinn hjá GS en síðari hlutinn á Grafarholtsvelli í Reykjavík. Keppni í kvennaflokki fór frma á Hvaleyrarvelli árið 1967 og var það fyrsta Íslandsmótið í golfi sem fram fór kvennaflokk – og þar sigraði Guðfinna Sigurþórsdóttir, úr GS, fyrst allra.
Heimamaðurinn Þorbjörn Kærbo fagnaði Íslandsmeistaratitlinum árið 1970 á Hólmsvelli í Leiru en þa fór seinni hluti mótsins fram hjá GS en fyrri hlutinn hjá Keili í Hafnarfirði. Jakobína Guðlaugsdóttir, GV, varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum það sama ár sama velli.
Hannes Eyvindsson varð Íslandsmeistari á Hólmsvelli árið 1978 þegar mótið fór fram í þriðja sinn í karlaflokki á vellinum.
Árið 1981 var keppt í karla og kvennaflokki á Hólmsvelli í Leiru á Íslandsmótinu í golfi – og var það í fjórða sinn í karlaflokki og annað sinn í kvennaflokki sem keppt var um stærsta titilinn hjá GS. Ragnar Ólafsson, GR, fagnaði sigri í karlaflokki og Sólveig Þorsteinsdóttir, GR, varði sinn titil frá árinu áður.
Árið 1986 fagnaði Úlfar Jónsson, GK, sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli af alls sex, á Hólmsvelli í Leiru og Steinunn Sæmundsdóttir, GR, gerði slíkt hið sama. Úlfar sigraði í þriðja sinn á ferlinum á Hólmsvelli árið 1989 og Karen Sævarsdóttir, GS, fagnaði sínum fyrsta titli af alls átta á sama tíma.
Árið 1993 sigraði Karen í fimmta sinn í röð á Íslandsmótinu þegar mótið fór fram á heimavelli hennar, og Eyjamaðurinn Þorsteinn Hallgrímsson, GV, sigraði í fyrsta sinn í karlaflokki.
Árið 1998 sigruðu Ragnhildur Sigurðardóttir, GR og Sigurpáll Geir Sveinsson, GA á
Íslandsmótinu á Hólmsvelli í Leiru. Það var annar titill Ragnhildar og Sigurpáls á ferlinum. Ragnhildur kann vel við sig á Hólmsvelli í Leiru því hún sigraði á Íslandsmótinu sem þar fór fram árið 2005 og var það fjórði Íslandsmeistaratitill hennar. Heiðar Davíð Bragason, sem þá keppti fyrir Golfklúbbinn Kjöl í Mosfellsbæ, sigraði í karlaflokki og er það eini Íslandsmeistaratitill hans.
Árið 2011 fór Íslandsmótið fram á Hólmsvelli í Leiru og var það í 10. sinn í karlaflokki og 8 sinn í kvennaflokki. Þar sigraði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, og var það hennar fyrsti titill. Axel Bóasson, GK, sigraði í karlaflokki og var það einnig fyrsti titill hans á Íslandsmótinu í golfi.
Commentaires